Innlent

"Barnalæsing" á snjallsíma

Hrund Þórsdóttir skrifar
Hrannar Pétursson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Vodafone, segir skuggahliðar fylgja fjarskiptatækninni.
Hrannar Pétursson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Vodafone, segir skuggahliðar fylgja fjarskiptatækninni.
Snjallsímaforritið Vodafone Guardian á að hjálpa foreldrum að tryggja að börn geti notað snjallsíma á skynsamlegan hátt og koma í veg fyrir að óæskilegir aðilar geti náð sambandi við börnin. Appið er fyrir Android snjallsíma og fæst á íslensku í símum sem styðja tungumálið. „Þetta er app sem er ætlað fyrir foreldra eða uppalendur sem vilja að barnið þeirra noti það sem tæknin hefur upp á að bjóða, en setja þeim eðlileg mörk,“ segir Hrannar Pétursson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Vodafone.

Með appinu er meðal annars hægt að stilla hverjir geta hringt í barnið, hvert það getur hringt og hvenær er kveikt á tiltekinni virkni. Þannig má til dæmis ákveða að netnotkun í símanum sé óheimil á skólatíma. Þá er hægt að stilla aðgang að myndavél í símanum og má til dæmis loka fyrir hana á meðan barnið er í leikfimis- eða sundtíma.

Hrannar er fjögurra barna faðir og reiknar með að hans börn verði að sætta sig við notkun appsins. Raunar gerir hann ráð fyrir að mörg börn verði ánægð með appið þar sem það veiti næði og vernd. Hann segir skuggahliðar fylgja fjarskiptatækninni. „Og við viljum aðstoða fólk við að takast á við þennan breytta veruleika. Margir foreldrar sem vilja kenna börnunum sínum á lífið eru pínulítið ráðvilltir þegar kemur að þessum stafræna heimi enda vita börnin mjög gjarnan meira um hann en foreldrarnir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×