Innlent

Gæti kostað ríkissjóð tugi milljarða

Hjörtur Hjartarson skrifar
Útgerðarfyrirtæki ættu að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort veiðigjaldið brjóti í bága við stjórnarskrá. Fyrirtækin hafa sterkan málstað enda er gjaldtakan ólögleg. Þetta segir fyrrverandi hæstarréttadómari í nýútkominni skýrslu um veiðigjöldin. 

Álitsgerðina vann Jón Steinar Gunnlaugsson að beiðni útgerðarfyrirtækis. Niðurstaðan er nokkuð afdráttarlaus, gjaldtakan sé ólögleg.

„Hugmyndin sem hvílir á bakvið þessa síauknu veiðigjaldatöku, hún er sú að fiskistofninn sé sameign þjóðarinnar og að útgerðin þurfi því að borga þjóðinni fyrir afnot af þessari sameign. Þetta er hugmynd sem fær auðvitað ekki staðist og gengur aldrei upp.“

Ástæðuna segir Jón Steinar vera að í aflaheimildum útgerðafélaga felist eignarréttindi sem eru njóta verndar stjórnarskrár. Áðurnefnd gjaldtaka skerðir eignarréttindi þeirra sem fiskveiðar stunda. Jón Steinar mótmælir því ekki að gjöful fiskimið við Íslandsstrendur séu sannarlega sameign þjóðarinnar en það sé af og frá að hans mati að þetta þýði það að Alþingi geti bara gert upptækar grunnforsendurnar í atvinnurekstri í grundvallar atvinnuvegi þjóðarinnar, útgerðinni.

Lögin um sérstakt veiðigjald tóku gildi í júlí í fyrra og byggir skattstofninn á afkomu fyrirtækjanna frá árinu á undan. Jón Steinar segir að þarna sé um skýrt skattalagabrot að ræða þar sem fyrirtækin gátu ekki, við öflun tekna sinna, vitað um skattlagninguna.„Þetta er auðvitað einhverskonar afturvirkni sem fær ekki staðist. Það er auðvitað eðlilegt að þeir sem eiga kvóta og borga þessi gjöld fari í mál og láti á það reyna fyrir dómstólum. Ég tel að þeir hafi mjög sterkan málstað þar.“

Ef dómstólar úrskurða  að veiðileyfagjöldin séu ólögleg er ljóst að ríkissjóður mun verða fyrir tugmilljarða króna tekjutapi. Eftir að sérstakt veiðileyfagjald var lagt á, hafa útgerðafélögin greitt um 10 milljarða króna á ári til íslenska ríkisins í veiðigjöld. Ljóst er því að það er mikið undir fyrir ríkissjóð að lögin standis skoðun dómstóla fari málið þangað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×