Innlent

Bjartsýnir á að risagróðurhús verði að veruleika

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Hollenskt fyrirtæki hyggst reisa 150 þúsund fermetra gróðurhús í nágreni við Grindavík. Fjárfestingin hleypur á sex milljörðum króna og gæti skapað 125 störf.

Íbúafundur var haldinn í Grindavík á miðvikudag þar sem fulltrúar hollenska fyrirtækisins EsBro kynntu fyrir Grindvíkingum uppbyggingu á hátæknigróðurhúsi sem rækta á lífræna tómata á markað í Bretlandi. Viðræður hafa staðið yfir síðustu mánuði milli Grindavíkurbæjar og EsBro. Meiri líkur en minni eru á því að langstærsta tómatarækt Íslandssögunnar verði í Grindavík.

„Við erum sannfærðir um að þetta verði að veruleika því annars værum við ekki komnir hingað til lands. Það er ekkert sem ætti að koma í veg uppbyggingu gróðurhússins. Íbúar Grindavíkur hafa mikilvæga rödd í þessu máli. Ef þeir taka þessu verkefni ekki með opnum örmum þá verður það ekki að veruleika hér.

Um gífurlega fjárfestingu er að ræða. Hollenska fyrirtækið áætlar að verkefnið kosti á milli 5-6 milljarða króna.

Helsta áhyggjuefni Grindvíkinga er ljósmengun sem gæti skapast verði gróðurhúsið að veruleika. Áhyggjur Grindvíkinga eru skiljanlegar enda gróðurhúsið á stærð við 20 fótboltavelli. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að ef Hollendingarnir standi við gefin loforð þá verði lítil sem engin ljósmengun.

„Við þekkjum ljósmengun frá litlum gróðurhúsum en þetta er miklu stærra verkefni. Hollendingarnir fóru vel yfir þetta málefni á íbúafundinum og telja sig geta lokað úti 95% til 99% af ljósbirtunni. Við þurfum að fá það sannreynt á næstu vikum hvernig það er gert. Gangi það eftir þá sé ég ekkert þessu til fyrirstöðu,“ segir Róbert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×