Innlent

Átta ára börn spila harðbannaðan tölvuleik

Hrund Þórsdóttir skrifar
Tölvuleikurinn Grand Theft Auto V, nýtur gríðarlegra vinsælda. Hann er dýrasti tölvuleikur allra tíma í framleiðslu en enginn leikur hefur  heldur selst jafnhratt. Leikurinn er bannaður innan 18 ára en kennarar við Grunnskólann í Stykkishólmi áttuðu sig á að börn niður í 8 ára voru að spila hann. Þeir sendu bréf til foreldranna til að vekja þá til umhugsunar um tölvuleikjanotkun og sérstaklega þennan leik. Þar kemur fram að leikurinn sé hlutverkaleikur þar sem ofbeldi, kvenhatur og eiturlyfjanotkun séu daglegt brauð. Spilarinn verði glæpakóngur og drepi til dæmis, nauðgi og kaupi vændi.

„Mér finnst að foreldrar ættu, ef þeir eiga þennan leik, að spila hann með börnunum sínum, sjá út á hvað hann gengur og ræða kannski líka bara siðferði leiksins við þau,“ segir Þóra Margrét Birgisdóttir, kennari við Grunnskólann í Stykkishólmi.

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, tekur undir. „Í leiknum færðu stig fyrir að brjóta á öðru fólki og koma fram með ofbeldisfullum hætti og börn hafa ekki þroska eða vit til að greina eins vel á milli og fullorðnir hvað má svo í raunveruleikanum og hvað ekki,“ segir Hrefna.

Hún segir börnum oft líða illa af því að spila leikinn en þó reyna þau oft að kaupa hann, að sögn Arnars Steins Sæmundssonar, verslunarstjóra í Skífunni Geimstöðinni. „En við auðvitað stoppum það alltaf og útskýrum fyrir foreldrum að þessi leikur er ekki leikfang. Þetta er bannað innan 18 og er sambærilegt við að kaupa áfengi eða sígarettur fyrir börn; við seljum engum yngri en 18 ára þennan leik,“ segir hann.

Við ræddum við nokkra krakka til að fá þeirra álit á leiknum, eins og sést í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×