Innlent

Íslandsmeistarar í ökuleikni

Hrund Þórsdóttir skrifar
Íslandsmeistarakeppni í ökuleikni hefur verið haldin árlega frá árinu 1978 á vegum Brautarinnar, en það er áhugamannafélag um bindindi og bætta umferðarmenningu. „Við höfum lagt mikla áherslu á notkun bílbelta og höfum m.a. verið með veltibíl í samstarfi við marga aðila. Svo höfum við farið með þessa keppni í ökuleikni um landið í mörg ár og reynt að vekja athygli ökumanna á að það skiptir máli að vanda sig við akstur og taka ábyrgð á því sem maður gerir í umferðinni,“ segir Einar Guðmundsson, formaður Brautarinnar.

Þegar fréttamann bar að garði voru bræðurnir Sighvatur og Gylfi efstir og jafnir í keppninni og aðeins munaði einni sekúndu á þeim. Sighvatur er margfaldur Íslandsmeistari en Gylfi er nýr í greininni og þeir segja að allir ættu að prófa. „Já, klárlega, maður rifjar upp umferðarreglurnar og svona. Það er spurning hvort það ætti ekki að hafa þetta sem kvöð í ökuskólanum,“ segir Sighvatur.

Þess má geta að hann stóð uppi sem sigurvegari og þeir bræður unnu liðakeppnina. Sigurvegari í kvennaflokki var Guðný Guðmundsdóttir.

Sumir þátttakendanna sýndu glæsileg tilþrif og fóru auðveldlega í gegnum þrautirnar, en eins og sjá má í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt verður hið sama varla sagt um fréttamann sem tók áskorun um að spreyta sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×