Innlent

Einar að fá lyktarskynið á ný

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Einar Skúlason er að fá lyktarskynið á ný.
Einar Skúlason er að fá lyktarskynið á ný. Mynd/GVA
Einar Skúlason, frumkvöðull og fyrrverandi frambjóðandi Framsóknar, þarf að skipta um tetegund sem hefur verið í uppáhaldi hjá honum síðastliðin tvö ár. Ástæðan er sú að hann fann í fyrsta sinn lykt eftir fimm ára hlé og lyktin af teinu var ekki að heilla hann.

„Allt í einu fann ég lyktina af teinu sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér undanfarin tvö ár. Lyktin eyðilagði þetta alveg fyrir mér og ég þarf að finna mér nýtt te,“ segir Einar í samtali við Vísi. Einar er ánægður með að vera farinn að finna lykt á ný. Hann fór á ný lyf fyrir skömmu til að minnka bólgur í nefholi sem hafa komið í veg fyrir að lyktarskyn hans virki með eðlilegum hætti.

„Ég er búinn að finna þrjár lyktartegundir í dag þannig að þetta er á réttri leið,“ segir Einar. „Ég fór loksins til læknis vegna þessa vandamáls en var búinn að prófa olíur og nálastungumeðferð. Þetta er að koma hægt og rólega. Ég var búinn að ýta því undan mér að fara til læknis og hélt að þetta myndi lagast að sjálfu sér. Þetta er það skynfæri sem maður getur helst lifað án. Viðbrögðin hjá mér hefðu verið öðruvísi ef þetta hefði verið sjón, heyrn eða bragðskyn.“

Synirnir vakta ísskápinn

Einar hefur óhikað leitað aðstoðar hjá sonum sínum vegna skorts á lyktarskyni á síðustu árum. „Ég hef aðallega fengið þá til að kíkja inn í ísskáp. Þeir þefa fyrir mig hvort það sé eitthvað að skemmast,“ segir Einar og hlær. „Þeir hafa reynst mér vel og hjálpað mér í gegnum þetta.“

Einar er á leið í knattspyrnu með félögum sínum í kvöld og vonast til að þefa uppi fleiri marktækifæri. „Það væri óskandi. Ég er búinn að vera fara ansi illa með færin að undanförnu og á inni að skora nokkur mörk. Stemmningin í klefanum eftir æfingu gæti hins vegar orðið svolítið öðruvísi þar sem ég hef ekki fundið svitalykt í mörg ár. Það verður spennandi að sjá hvernig lyktarskynið bregst við því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×