Fótbolti

Alfreð slær Huntelaar og van Nistelrooy við

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alfreð Finnbogason er markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með níu mörk.

Dagblaðið Voetbal International fjallar um ótrúlega velgengni Alfreðs í bláum og hvítum búningi Heerenveen. Setur hollenska blaðið markaskorun Alfreðs í samhengi við fyrri kempur sem klæddust sömu treyju.

Alfreð hefur skorað 37 mörk í 39 leikjum með Heerenveen á tíma sínum hjá liðinu. Það gerir tæplega mark að meðaltali í leik eða hlutfallið 0,95.

Ruud van Nistelrooy og Klas-Jan Huntelaar, sem báðir slógu í gegn hjá Heerenveen og héldu á stærra svið, státuðu ekki af svo magnaðri tölfræði. Hlutfall Huntelaar í mörkum skoruðum í leikjum er 0,66 og 0,43 hjá Van Nistelrooy.

Nistelrooy hélt frá Heerenveen til PSV Eindhoven, þaðan til Manchester United áður en Real Madrid og Hamburg nutu liðssinnis hans.

Huntelaar sló í gegn hjá Ajax áður en hann hélt til AC Milan og svo til Real Madrid. Báðir tveir hafa raðað inn mörkum með hollenska landsliðinu í gegnum tíðina.

Dregur blaðamaður VI þá ályktun að allir vegir séu Alfreð færir ekki síst ef horft er til árangurs hans í samanburði við markamaskínurnar tvær.

Þó er markheppni í búningi Heerenveen ekki ávísun á farsælan feril. Þannig skoraði Afonso Alves mark að meðaltali í leik yfir eitt og hálft ár. Hann var keyptur á metfé til Middlesbrough þar sem ekkert gert en framherjinn brasilíski spilar í dag í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×