Fótbolti

Þóra ekki sú eina sem fór ekki í viðtöl í dag

Þóra B. Helgadóttir.
Þóra B. Helgadóttir.
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu æfði á Laugardalsvellinum í dag en liðið undirbýr sig nú fyrir leik gegn Sviss í undankeppni HM. Leikurinn fer fram á fimmtudag.

Æfingin í dag var opin fjölmiðlum en fjölmiðlamönnum var tilkynnt fyrir æfinguna að markvörðurinn Þóra B. Helgadóttir myndi ekki gefa kost á sér í viðtöl.

Blaðamenn álitu þar af leiðandi að Þóra væri sú eina í íslenska liðinu sem væri ekki fáanleg í viðtöl á æfingunni en þetta var eina aðgengi íslenskra blaðamanna að íslenska landsliðinu fyrir leikinn.

Eftir frétt á Vísi í kvöld um að Þóra hafi ekki gefið kost á sér í viðtöl hafði Freyr Alexandersson, þjálfari liðsins, samband við íþróttadeild í kvöld. Hann greindi frá því að um misskilning hafi verið að ræða milli sín og fjölmiðlafulltrúa íslenska liðsins.

Markverðir íslensku liðsins áttu nefnilega að sleppa viðtölum í dag og fara þess í stað strax á æfingu með markmannsþjálfaranum Ólafi Péturssyni.

Það bíða margir spenntir eftir því hvort Þóra Björg Helgadóttir eða Guðbjörg Gunnarsdóttir standi í markinu á móti Sviss á fimmtudaginn. Þóra hefur verið aðalmarkvörður liðsins undanfarin ár en Guðbjörg sló í gegn á EM í Svíþjóð.

 

Leikurinn við Sviss, sem er sá fyrsti í undankeppni HM 2015, fer fram á Laugardalsvellinum klukkan 18.30 á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×