Fótbolti

Kristianstad áfram í bikarnum án íslensku stelpnanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir á æfingu með íslenska landsliðinu í dag.
Margrét Lára Viðarsdóttir á æfingu með íslenska landsliðinu í dag. MyndValli
Margrét Lára Viðarsdóttir og Sif Atladóttir voru ekki með Kristianstad í dag þegar liðið sló Eskilsminne út úr sænsku bikarkeppninni. Margrét Lára og Sif eru komnar til Íslands til að undirbúa sig fyrir landsleik á móti Sviss á fimmtudagskvöldið.

Kristianstad átti ekki í miklum vandræðum í þessum leik sem liðið vann 6-0. Kristianstad var komið í 3-0 eftir 27 mínútur og var 4-0 yfir í hálfleik. Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad, hélt upp heiðri Íslendinganna með því að stýra sínu liði til öruggs sigurs.

Therese Björck og Elena Sadiku skoruðu báðar tvö mörk fyrir Kristianstad en hin mörkin skoruðu þær Elin Borg og Susanne Moberg en sú síðastnefnda tók við fyrirliðabandinu af Sif.

Kristianstad er þar með komið í sextán liða úrslitin sem fara þó ekki fram fyrr en á næsta ári. Bikarkeppnin í Svíþjóð tekur nú tvö ár en keppnin hófst í maí og líkur með úrslitaleik næsta vor.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×