Innlent

Vilja Davíð Oddsson upp á vegg

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Davíð Oddsson er vinsælt stofustáss á meðal forstjóra og viðskiptamanna. Þetta segir listmálari sem málar myndir af Davíð sem rjúka út eins og heitar lummur.

Listmálarinn Árni Björn Guðjónsson opnaði sýningu á Café Milano í byrjun mánaðar. Árni er með meistarapróf í húsgagnasmíði en hefur málað frá tólf ára aldri. Árni situr ekki auðum höndum, en á síðustu árum hefur hann einnig hannað rúmlega tvö þúsund fermetra verslana- og veitingahús sem hann sér fyrir sér á Ingólfstorgi auk þess sem hann hefur hannað vatnagarð sem hann dreymir um að reisa í Ölfusi.

En hvers vegna datt þér í hug að mála portrettmyndir af Davíð? „Tja, ég bjó á Spáni og þar var ég að mála dýrlingamyndir. Svo kom ég heim og hugsaði með mér að Davíð yrði nú örugglega vinsæll. Ég sló til og strax á fyrstu sýningunni seldi ég tvær. Nú er ég búinn að selja fjórtán Davíða.“

Árni segir að Davíð sé vinsælt stofustáss hjá forstjórum og viðskiptamönnum. Þeir komi hver á eftir öðrum og vilji eignast eitt stykki. Það þyki virðulegt að hafa Davíð hangandi inni á skrifstofu. Árni segist þó ekki vera sérstaklega sammála pólitískum skoðunum Davíðs, en segir að hann haldi upp á hann sem merkilegan mann.

„Davíð er algjör klassík, það vita það nú allir. Það eru margir sem hreinlega elska hann. Þeir segja það við mig sem hafa keypt myndir af mér, þeir bara elska Davíð.“Sýningin á Café Milano stendur til 9. október. Hér er hægt að skoða og panta myndir eftir Árna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.