Íslenski boltinn

Skagamenn fallnir í fjórða sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bræðurrnir Bjarni og Jóhannes Karl Guðjónssynir eru með lið sín á sitthvorum enda töflunnar.
Bræðurrnir Bjarni og Jóhannes Karl Guðjónssynir eru með lið sín á sitthvorum enda töflunnar. Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Skagamenn féllu í kvöld úr Pepsi-deild karla í fótbolta og spila því í 1. deildinni sumarið 2014. Þetta er í fjórða sinn sem Skagaliðið fellur úr efstu deild. Skagamenn féllu einnig úr deildinni 1967, 1990 og 2008.

Skagamenn komust strax upp aftur árin 1968 og 1991 og urðu í kjölfarið Íslandsmeistarar 1970 og 1992 en liðið var þrjú tímabil í B-deildinni þegar liðið fór síðast niður fyrir fimm árum síðan.

Skagaliðið var á sínu öðru ári í deildinni eftir að hafa náð sjötta sætinu í fyrra. Þá fékk liðið 14 af 32 stigum sínum í fyrstu sex umferðunum og sat í toppsæti deildarinnar í lok maí.

Síðan þá hefur leiðin legið niður á við og Skagamenn hafa aðeins náð í 8 stig í 19 leikjum í Pepsi-deildinni í sumar.

Tapið í kvöld var það sjötta hjá liðinu á heimavelli í sumar en það er þó skelfilegur árangur á útivelli sem er að fara með liðið niður. ÍA hefur aðeins náð í 1 stig af 30 mögulegum á útivelli í sumar.

Skagamenn eiga þó úrvalsdeildarlið á næsta ári því stelpurnar tryggðu sér sæti í Pepsi-deildinni í sumar og halda því uppi heiðri Skagamanna í deild þeirra bestu næsta sumar.

Fallnir í fjórða sinn.

ÍA 6. sæti af 6 liðum 1967

4 stig af 20 mögulegum

- féll 3. september þegar KR náði í stig á móti ÍBA á Akureyri

ÍA 10. sæti af 10 liðum 1990

11 stig af 54 mögulegum

- féll 8. september eftir 1-3 tap á heimavelli á móti KR

ÍA 12. sæti af 12 liðum 2008

13 stig af 66 mögulegum

- féll 18. september eftir markalaust jafntefli á heimavelli á móti KR

ÍA 12. sæti af 12 liðum 2013

8 stig af 57 mögulegum (3 leikir eftir)

- féll 18. september eftir 0-5 tap á móti Víkingi Ó. á heimavelli




Fleiri fréttir

Sjá meira


×