Innlent

Gyrt niður um busa og þeir beittir ofbeldi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Löng hefð er fyrir busavígslum hér á landi. Þessi ljósmynd er frá busavígslu í FB árið 1987.
Löng hefð er fyrir busavígslum hér á landi. Þessi ljósmynd er frá busavígslu í FB árið 1987. mynd/ljósmyndasafn reykjavíkur
Skólastjóri Fjölbrautaskólans í Garðabæ hefur gefið út þá tilskipun að ekki verði fleiri busavígslur í skólanum.

„Á seinni árum hefur það síðan færst í vöxt að svokallaðar einkabusanir fari fram þegar busavígslu er lokið í FG. Þar taka eldri piltar, sumir hverjir ekki einu sinni nemendur í skólanum, nýnema FG og beita þá ótrúlega grófu ofbeldi.“ Þetta segir í fréttabréfi skólans sem kom út í dag.

Þá kemur fram að skólastjórn hafi skipulagt ferðir að busavígslum loknum til að koma nemendum í öruggt skjól. „Okkur til mikillar undrunar og vonbrigða hefur talsverður hópur nýnema sleppt því að fara í þessar ferðir til þess eins að láta beita sig grófu ofbeldi og eru þannig orðnir viljugir þátttakendur.“

Þá er greint frá einkabusunum eftir busavígslu FG í ár þar sem komið hafi við sögu „fiskikör með úrgangi og úldnum kjúklingi“ og að nemendum hafi verið hent í sjóinn, gyrt hafi verið niður um þá og þeir látnir bera hundaólar.

„Svona getur þetta ekki gengið. Viðbrögð skólans verða af tvennum toga. Í fyrsta lagi sendum við foreldrum þeirra drengja sem við vitum að tóku þátt bréf þar sem við förum fram á að á þessu verði tekið á heimilinu. Við vitum að við höfum ekki nema hluta nafnanna en teljum rétt að koma því sem við vitum á framfæri. Í öðru lagi verða ekki fleiri busavígslur í FG. Við munum auðvitað bjóða nýnema áfram velkomna og nýnemaferðir verða áfram á dagskrá. En við getum ekki lengur verið einhverjum ofbeldisseggjum skálkaskjól til að svala ofbeldisþörf sinni.“

Lesa má tilkynninguna í heild sinni á vef FG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×