Innlent

Misdýrt að byrja í háskóla

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Mikill munur er á bókakostnaði nýnema við Háskóla Íslands. Munurinn getur hlaupið á tugum þúsunda á milli námsbrauta.

Tæplega þrettán þúsund nemendur eru nú skráðir í Háskóla Íslands, þar af rúmlega 3500  nýnemar. Allir nemendur við Háskóla Íslands borga skrásetningargjald sem er um sextíu þúsund krónur og gildir yfir báðar annirnar. En það fara þó ekki allir undir sama hatt þegar kemur að bókakostnaði.

Ef farið er inn á vef Bóksölu stúdenta, og bókakostnaður faga sem merkt eru sérstaklega fyrir fyrsta ár eru borin saman, kemur í ljós mikill munur er á kostnaði á milli námsbrauta.

Samkvæmt vefsíðunni er bókakostnaður fyrir stjórnmálafræðinema á fyrsta ári er  35.570 krónur, í læknisfræði er hann  63.555 krónur, guðfræði 79.500 krónur, mannfræði 11.115 krónur,  í viðskiptafræði er kostnaðurinn 57.600 krónur og í þjóðfræði er hann 15.680 krónur. Það er því ljóst að það er misdýrt að byrja í háskóla.

Þess ber einnig að geta að oft bæta kennarar við sérstökum lesheftum eða útprentuðum greinum við leslista nemenda sem geta einnig kostað sitt. 

Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands, sem bárust í síðustu viku, eru stærstu deildir háskólans sem fyrr lögfræði, viðskiptafræði og sálfræði. Viðskiptafræðin er þó fjölmennust. Einnig hefur orðið veruleg fjölgun í tölvunar - og verkfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×