Innlent

Hannar samfélagsbætandi snjallsímaforrit

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Ásta Lovísa Arnórsdóttir hefur nú sett á markaðinn snjallsímaforrit fyrir blinda og sjónskerta. Forritið gerir blindum kleift að nota teninga í spilum og styðst við talað mál.

Ásta fékk hugmyndina að snjallsímaforritinu þegar blindur vinur hennar gat ekki spilað teningaspil með vinahópnum. Forritið, sem ber nafnið Dice in Dark, er ókeypis.

„Ég tók eftir því að það eru til allskonar leikja- og tengingaöpp fyrir sjáandi fólk, en það er ekkert þannig til fyrir blinda. Eftir smá umhugsun ákváðum við bara að ráðast í verkið," segir Ásta.

Það tók Ástu aðeins nokkra daga að búa teningaforritið til með hjálp kærustu sinnar, sem er forritari, og að hennar sögn er það afar notendavænt og einfalt í notkun. Forritið kastar teningum þegar strokið er yfir skjáinn og styðst við talað mál. Ásta tekur fram að ef að notandinn vill fara leynt með sínar tölur, eins og oft tíðkast í spilum, getur hann einfaldlega notað heyrnatól.

Forritið er aðeins mánaðar gamalt en hefur fengið gífurlega góð viðbrögð. Ástu dreymir um að búa til fleiri samfélagsbætandi snjallsímaforrit og er nú þegar byrjuð á næsta verkefni.

„Hugmyndin um að búa til app sem auðveldar samskipti heyrnalausra og þeirra sem heyra hefur verið mér mjög hugleikin lengi, en það eru heyrnaskertir einstaklingar í fjölskyldunni minni. Það forrit yrði þó talsvert stærra í sniðum og það gæti jafnvel tekið marga mánuði að búa það til. Þess vegna þarf ég fjármagn, og er búin að leita eftir ýmsum styrkjum til að hrinda þessu í framkvæmd sem fyrst," segir Ásta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×