Innlent

Lestrarhátíð í bókmenntaborg

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sunna Dís og Kristín Björg í Langholtsskóla höfðu gaman af því að yrkja ljóð í dag. Afraksturinn má sjá fyrir aftan þær á myndinni.
Sunna Dís og Kristín Björg í Langholtsskóla höfðu gaman af því að yrkja ljóð í dag. Afraksturinn má sjá fyrir aftan þær á myndinni.
Ljóð og textar um borgina verða í brennidepli á Lestrarhátíð  í Reykjavík sem haldin verður í annað sinn í október. Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO stendur fyrir Lestarhátíðinni. Í ár ber hátíðin nafnið Ljóð í leiðinni þar sem borgin verður í brennidepli og þau fjölmörgu ljóð og söngtextar sem um hana hafa verið samin í gegnum tíðina.

Dagskrá hátíðarinnar var kynnt á blaðamannafundi í dag og ljóst að úr mörgu verður að velja. Má þar nefna ljóð í strætó og bókakaffi með borgarljóðum. Börn og ungmenni í skólum borgarinnar verða hvött til  að spreyta sig á skapandi skrifum og nýta ljóðmálið til að segja frá borginni sinni og sínu nánasta umhverfi.

Reykjavíkurborg fékk heiðurstitilinn bókmenntaborg UNESCO árið 2011. Lára Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri Lestrarhátíðarinnar, segir hátíðina vera stærsta verkefni bókmenntaborgarinnar.

„Markmið hátíðarinnar á að vera að hvetja til lesturs og auka umræðu um bókmenntir og tungumál í borginni og um landið allt. Sömuleiðis viljum við taka ljóðlistina af þessum háa stalli og setja hana meira út í samfélagið," segir Lára.

Borgin býður nemendum í sérstakar ljóð- og tónsmiðjur í tilefni lestrarhátíðarinnar þar sem þau eru hvött til að spreyta sig í skapandi skrifum auk þess sem tónlist verður samin við ljóð. Fyrsta smiðjan hófst í morgun þar sem börn í sjötta bekk í Langholtsskóla gáfu sköpunargáfunni lausan tauminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×