Innlent

Var með lista yfir fleiri börn

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Maður sem ákærður hefur verið fyrir að nema á brott unga stúlku og brjóta gegn henni kynferðislega, hafði í fórum sínum lista með nöfnum og heimilisföngum nokkurra barna. Aðalmeðferð í málinu fer fram á fimmtudaginn

Rannsókn er lokið í máli mannsins sem nam barnunga stúlku á brott úr vesturbænum og braut gegn henni kynferðislega á afviknum stað og verður málið þingfest á fimmtudag. Þinghald málsins verður lokað til að vernda hagsmuni stúlkunnar sem um ræðir.

Þann 14. maí síðastliðinn er maðurinn talinn hafa fært 10 ára stúlku inn í bíl sinn með valdi og ekið með hana á brott á afvikinn stað þar sem hann braut gegn henni kynferðislega. Eftir ódæðið ók hann stúlkunni aftur í vesturbæinn og skildi hana eftir. Hún gekk heim og greindi foreldrum sínum frá brotinu.

Lögreglan hélt á heimili stúlkunnar um leið og tilkynningin barst og í framhaldi af því var farið með hana á sjúkrahús til aðhlynningar. Þá þegar hóf lögregla umfangsmikla leit af brotamanninum og ökutækinu. Maðurinn var handtekinn skömmu síðar en stúlkan sjálf gat gefið greinargóða lýsingu á manninum, bílnum og ökuleiðinni.

Rannsókn málsins var víðtæk og beindist meðal annars að lista sem maðurinn hafði í fórum sínum. Á listanum voru nöfn barna og heimilisföng ásamt öðrum upplýsingum um þau. Börnin voru ekki tengd manninum á neinn hátt.  

Málið vakti strax mikinn óhug og tengsl mannsins við sambærileg atvik voru könnuð. Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu en þó ekki fyrir sambærileg mál. Við yfirheyrslu bar maðurinn við minnisleysi. Hann hafi verið afar illa sofinn og undir áhrifum vímuefna. Við útgáfu ákæru í málinu kom fram að maðurinn drægii það ekki í efa að hann hafi gerst brotlegur við stúlkuna þótt hann myndi ekki eftir því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×