Innlent

Fann múmíu uppi á háalofti

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ótrúlegur fundur sem að vekur upp margar spurningar.
Ótrúlegur fundur sem að vekur upp margar spurningar. Mynd/AFP
Dularfullt mál er komið á borð þýsku lögreglunnar eftir að tíu ára gamall drengur fann múmíu í horni háalofts ömmu sinnar og afa. Múmían er lík af manneskju og hefur röntgenmynd sem tekin var af höfði múmíunnar leitt í ljós að ör var föst í vinstri augntóft hennar og handleggir hennar krosslagðir yfir bringuna. Þetta kemur fram á Decchan Chronicle.

Það sem eykur á dulúð málsins er að einnig hefur komið í ljós að málmhjúpur hylur bein eins og hálfs metra langra líkamsleifanna. Ekki er vitað hvors kyns múmían var. Faðir drengsins, Lutz-Wolfgang Kettler, hefur sagt frá því að faðir hans fór árið 1950 til Norður-Afríku og gæti mögulega hafa tekið múmíuna með sér tilbaka sem minjagrip.

Léreftsböndin sem umluktu múmíuna hafa ekki verið fjarlægð af ótta við að skemma fundinn. Þau eru frá 20. öld og búin til í vél að sögn Kettler, tannlæknis sem var viðstaddur skönnun á múmíunni. „Það sem við höfum eru spurningar ofan á spurningar,“ sagði Kettler síðan drengurinn fann múmíuna fyrir mánuði síðan.  

Meinafræðingurinn Andreas Nerlich við Bogenhausen spítalann í Munchen sagði í samtali við vefsíðuna Spiegel að þrátt fyrir að hauskúpan og beinin séu ekta þá sé múmían gervi. Hún hafi verið búin til úr einum eða fleiri líkömum.

Lögregla hefur varann á og bíður eftir frekari upplýsingum um aldur beinanna áður en hún fer í rannsókn á hvort að um svindl sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×