Innlent

Úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
mynd/heiða
Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í dag karlmann og konu um fertugt í gæsluvarðhald í viku vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á meintri vændisstarfsemi.

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í gær erlenda konu og íslenskan karlmann í tengslum við umfangsmikið vændiskaupamál. Karlmaðurinn er grunaður um að hafa haft milligöngu eða tekjur af vændi konunnar og leikur grunur á að tugir manna hafi keypt vændi hjá henni. Þá hafa margir þeirra verið yfirheyrðir.

Konan, sem er frá Lettlandi, kom til landsins fyrir um tveimur mánuðum og lék grunur á að hún væri þolandi mansals. Sá grunur hefur ekki verið staðfestur en málið hefur verið í rannsókn frá því konan kom til landsins.

Í samtali við Vísi fyrr í dag vildi lögreglan á Suðurnesjum árétta að handtaka konunnar hafi ekki verið vegna þess að hún hafi stundað vændi sjálf, enda sé ekki refsivert að stunda vændi. Það sé hinsvegar ólöglegt að hafa milligöngu um vændi og mansal og kaup á vændi eru jafnframt ólögleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×