Íslenski boltinn

Rúnar Alex vissi hvar Davíð myndi skjóta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
"Mér leið bara eins og ég ætti heima hérna. Ég vil fá að spila með þeim bestu. Það voru allir búnir að tala við mig og róa mig niður fyrir leikinn," sagði hetja KR-inga, Rúnar Alex Rúnarsson, sem sló í gegn í sínum fyrsta Pepsi-deildarleik.

Rúnar Alex stóð í marki KR þegar liðið mætti FH í toppslag Pepsi-deildar karla. Alex var valinn maður leiksins og stóð sig frábærlega. KR vann leikinn 3-1.

"Að sjálfsögðu var ég svolítið stressaður en það vandist hratt. Sérstaklega eftir að ég varði vítið. Ég held að öll frammistaða mín í leiknum byggist á því að ég varði vítið."

Rúnar Alex þekkir Davíð Þór, sem tók vítið fyrir FH, vel og það reyndist honum happadrjúgt í dag.

"Hann skaut alltaf í þetta horn þegar við vorum að leika okkur í garðinum hjá Arnari bróður hans í Belgíu. Ég tók sénsinn og hann setti boltann þarna."

Rúnar Alex viðurkenndi að frammistaðan væri framar vonum hjá sér.

"Ég er bara 18 ára gamall og því alveg rólegur. Auðvitað vil ég fá að spila en ég átta mig á því hversu erfitt er að koma í liðið og ég bíð því rólegur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×