Innlent

Fjórar milljónir í stöðumælasektir

Jakob Bjarnar skrifar
Kolbrún Jónatansdóttir hjá Bílastæðasjóði fær fjórar milljónir í kassann eftir Menningarnótt.
Kolbrún Jónatansdóttir hjá Bílastæðasjóði fær fjórar milljónir í kassann eftir Menningarnótt.
Kolbrún Jónatansdóttir framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs segir rúmlega þúsund bíleigendur hafi verið sektaðir fyrir að leggja ólöglega á Menningarnótt sem ætti að skila 4 milljónum í kassann – greiði allir á réttum tíma.

Á Facebook og víðar á netinu má sjá menn bera sig aumlega, þeir sem fengu stöðumælasekt á Menningarnótt og ýmsir eru reiðir. Meðal annars hefur verið bent á að ekki hafi breytt neinu þó menn hafi verið með bíla sína á svæði sem þeim var beint inn á -- klukkan 23:30 hafi verið kominn sektarmiði. En, nú bregður svo við að framkvæmdastjóri sjóðsins kannast ekki við neinar kvartanir. Og finnst ekki mikið til koma þegar nefnt er að menn hafi nefnt full vasklega framgöngu stöðumælavarða á Menningarnótt.

„Ég held bara ekki,“ segir Kolbrún aðspurð hvort henni hafi ekki borist neinar kvartanir? „Nei, ég sé engin sérstök andmæli. Ég veit að það koma einhver andmæli. Það gerist bara alltaf hvort sem um er að ræða Menningarnótt eða einhverjir aðrir viðburðir. Jú, hér sé ég eitt gjald ítrekað af fyrstu hundrað sem ég er að skoða. Það er ekki meir.“

Kolbrún segir þetta ekkert nýtt að menn sem leggja ólöglega á Menningarnótt séu sektaðir. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er „Gakktu í bæinn!" og boðað var að þeir sem myndu leggja ólöglega yrðu umsvifalaust sektaðir, og því átti þetta ekki að koma neinum á óvart. Kolbrún segir að tíu stöðumælaverðir hafi verið að störfum, svipað og var í fyrra og hitteðfyrra og ljóst má vera að þeir hlífðu sér hvergi við störf sín. Kolbrún fletti upp í bókum sínum fyrir fréttastofu og þá kom á daginn að rúmlega þúsund bíleigendur voru sektaðir á Menningarnótt. Kolbrún segir að það eigi eftir að koma á daginn hvað skilar sér í peningum talið.

„En, hérna... ef allir myndu nú borga núna. Og öll gjöld frádregin og ekkert niður fellt þá er þetta nálægt fjórum milljónum. En, þetta eru ekki peningar sem mér finnst spennandi. Hitt er miklu meira spennandi að fólk hlusti á viðvaranir og leggi ekki ólöglega. Ég veit ekki hvort þetta er bara alltof lágt eða fólki er alveg sama um að henda peningunum svona út um gluggann? Gjaldið er sennilega allt of lágt.“

Sekt við að leggja ólöglega eru fimm þúsund krónur en ef menn greiða innan þriggja daga er gjaldið 3.900 krónur og fjórar milljónirnar miðast við það. Kolbrún segir um að gera að borga sem fyrst, eða innan þriggja daga. „Mín budda, ég myndi ekki tíma þessu. Ég vil eyða 3.900 krónum í annað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×