Innlent

Nánast útilokað að álver rísi í Helguvík á þessu kjörtímabili

Jakob Bjarnar skrifar
Ketill Sigurjónsson leggur fram kolsvarta greiningu á stöðu áliðnaðarins í nýrri grein.
Ketill Sigurjónsson leggur fram kolsvarta greiningu á stöðu áliðnaðarins í nýrri grein.
Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur á sviði orkumála, leggur fram kolsvarta greiningu á stöðu áliðnaðar í nýrri grein. Hann telur afar ólíklegt að hér rísi nýtt álver á næstunni, frekar að eitt þeirra muni hætta starfsemi.

Fyrirsögn greinar Ketils, sem birtist á bloggsíðu hans, er "Hvaða álver lokar fyrst?". Hún segir sína söguna um efni greinarinnar. Hann telur þá stjórnmálamenn sem tala um nýtt álver ekki í mikilli snertingu við raunveruleikann, ál snarféll í verði árið 2008 í kjölfar fjármálakreppu og við tók offramleiðsla, miklar umframbirgðir hafa safnast upp og ólíklegt því að verð hækki eins og önnur hrávara, svo sem olía og járngrýti hafa gert.

„Efni þessarar greinar gengur fyrst og fremst út á að menn hafi í huga að ekki er sjálfgefið að álverð verði hátt næstu tíu ár eða svo. Ekkert er hægt að fullyrða um þetta. En, þeir sem skoða þetta mest og hafa verið að skrifa um þetta að undanförnu eru svartsýnir á að álverð komi til með að hækka á næstu árum og jafnvel næsta áratug.“

Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls, Samtaka álframleiðenda, sagði í samtali við RÚV í morgun að langtímahorfur væru góðar en Ketill spyr á móti hvað hann eigi við? Verður álverð orðið hærra eftir fjögur ár, tíu ár eða tuttugu? Þetta sé óljóst hjá Pétri. Ketill ætlar að fjalla meira um ástandið á álmörkuðum á næstunni og mun þá leitast við að svara þeirri spurningu hvaða álver á Íslandi muni hugsanlega hætta starfsemi. Hann segir í hæsta máta ólíklegt að hér rísi nýtt álver á næstunni.

„Mér þykir það mjög – mjög ólíklegt að hér rísi álver á næstu árum. Ég er þá fyrst og fremst að vísa til þessa kjörtímabils því það var talsvert um þetta talað í aðdraganda kosninga. Ég tel nánast útilokað að framkvæmdir fari á fullt í Helguvík á þessu kjörtímabili. Hvað gerist síðar? Það er auðvitað miklu erfiðara að spá um það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×