Innlent

Best að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar telur best að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni, en segir bæinn sinn vel í stakk búinn til að taka við innanlandsflugi.

Rúmlega 55.000 manns hafa skrifað undir undirskriftasöfnun til stuðnings því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni en skipulagstillaga aðalskipulags Reykjavíkur gerir ráð fyrir að flugvöllurinn víki þaðan innan skamms. Þeir sem eru á móti því að flugvöllurinn verði færður segja hann hjartað sem slær allan sólarhringinn, árið um kring. Reykjanesbær er á meðal staðsetninga sem nefndar hafa verið fyrir nýjan flugvöll.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að fullur áhugi sé fyrir að fá innanlandsflug í bæinn. „Hinsvegar þar sem er miðstöð stjórnsýslu og þar sem er miðstöð sjúkraþjónustu, en það er höfuðborgin, þá er mjög ákjósanlegt að hafa innanlandsflug þar. Ef að menn hinsvegar hafa ekki áhuga á að hafa flugvöllinn þar þá eru þau velkominn hingað til okkar,“ segir Árni.

Hann tekur þó fram að fjörutíu mínútna akstur sé frá Keflavíkurflugvelli til miðbæjar Reykjavíkur og að menn verði að gera sér grein fyrir því.

Árni segir Reykjanesbæ vel í stakk búinn til að takast á við verkefni sem þetta og segir alla aðstöðu til uppbyggingar flugvallar til staðar. „Og það eru milljarðar sem liggja í uppbyggingu þessa alþjóðaflugvallar og allrar þeirrar aðstöðu. Hinsvegar verða menn að huga þá að sjúkraflutningum en hér er Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hér er ákveðin aðstaða til staðar. Við viljum ekkert gera of mikið úr því og segja að það þurfi þá ekki að skoða frekari innviði til þess að byggja upp þá aðstöðu“, segir Árni vel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×