Innlent

„Eins og að koma heim aftur“

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Lesskilningur hjá börnum í Reykjanesbæ er hlutfallslega meiri en hjá börnum í Reykjavík. Margt er sagt spila þar inn í, meðal annars hinar svokölluðu lestrarömmur sem koma í skólann og hjálpa krökkunum.

Síðustu tvö til þrjú árin hefur lestrargeta grunnskólabarna í Reykjanesbæ verið á stöðugri uppleið og má í þessu samhengi nefna að hlutfallslega fleiri börn í öðrum bekk þar í bæ geta lesið sér til gagns, en börn í Reykjavík. Gylfi Þór Gylfason, fræðslustjóri Reykjanesbæjar, segir margar ástæður liggja að baki þessari auknu lestrargetu. „ Í fyrsta lagi það að leikskólarnir okkar leggja sérstaka áherslu á læsi og börnin okkar eru einfaldlega að koma betur undirbúin undir grunnskólagöngu en þau hafa verið að gera áður.“ segir hann.

Skimun er eitthvað sem skólar í bænum notfæra sér mikð og er niðurstöðum skimana skilað með markvissum hætti til foreldra og kennara. Gylfi segir þau því vita nákvæmlega hvaða börn þurfa sérstakan stuðning og hvað þarf til þess að börn verði læs. Hann segir kennarana tryggja með gæðakennslu að þau verði það.

Lestrarömmurnar í félagi eldri borgara á Suðurnesjum eiga líka sinn þátt í því að börnunum fer fram, en ömmurnar koma inn í skólana og taka að sér einkakennslu í lestri. Guðrún Jónsdóttir lestraramma segir þetta mjög gaman. „Ég kenndi hérna sjálf í áratugi þannig að þetta er bara fyrir mér eins og að koma heim aftur,“ segir hún.

Krakkarnir í 1. bekk í Njarðvíkurskóla upptekin við lærdóm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×