Innlent

Hættir sem bæjarstjóri Hornafjarðar

Haraldur Guðmundsson skrifar
Hjalti Þór Vignisson hefur setið sem bæjarstjóri Hornafjarðar í sjö ár.
Hjalti Þór Vignisson hefur setið sem bæjarstjóri Hornafjarðar í sjö ár.
Hjalti Þór Vignisson mun láta af störfum sem bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar þann 1. nóvember næstkomandi og hefja störf hjá Icelandic Pelagic ehf.

Hjalti mun því ekki starfa sem bæjarstjóri út kjörtímabilið en hann hefur setið sem bæjarstjóri í sjö ár.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Hjalti sendi frá sér og birtist á heimasíðu sveitarfélagsins.

Þar segir Hjalti að hann muni hefja störf hjá Icelandic Pelagic ehf. í byrjun nóvember, en fyrirtækið sérhæfir sig í sölu á afurðum úr uppsjávarfiski.

Yfirlýsing Hjalta Þórs Vignissonar, bæjarstjóra Hornafjarðar:

Síðastliðin níu ár hef ég gegnt ábyrgðarstarfi hjá Sveitarfélaginu Hornafirði, þar af síðustu sjö ár sem bæjarstjóri.  Sá tími hefur verið skemmtilegur og viðburðaríkur.  Öll þessi ár hef ég starfað með góðu fólki, bæði kjörnum fulltrúum og starfsfólki sveitarfélagsins.  Eftir umhugsun  síðustu vikur og mánuði komst ég að þeirri niðurstöðu að rétt væri að sækjast ekki eftir að gegna starfi bæjarstjóra að loknu yfirstandandi kjörtímabil.  Það er mitt mat að ekki sé farsælt fyrir samfélagið að sami einstaklingur gegni starfi bæjarstjóra of lengi.

Ætlunin var að starfa út kjörtímabilið en nýverið sá ég auglýsingu frá  Iceland Pelagic ehf. um áhugavert starf.  Í stuttu máli hefur félagið ráðið mig til starfa frá og með 1. nóvember nk.  Þá læt ég af störfum sem bæjarstjóri Hornafjarðar.  Nýja starfið er spennandi, hjá fyrirtæki sem hefur byggst jafnt og þétt upp á síðustu misserum.  Þar gefast tækifæri til að auka við þekkingu mína og færni.  Það skipti ekki síður máli að starfstöðin er á Höfn, þar sem fjölskyldunni hefur liðið vel og við viljum búa áfram.

Efst í huga er þakklæti til allra sem hafa starfað með mér og stutt mig í starfinu.  Íbúar hafa frá fyrstu tíð verið hvetjandi og sýnt vináttu fremur en nokkuð annað. Það hafa verið forréttindi að gegna starfi bæjarstjóra Hornafjarðar.  Ég vil nota þetta tækifæri og þakka íbúum, starfsfólki og kjörnum fulltrúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar samfylgdina í öll þessi góðu ár.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×