Innlent

Vonskuveður í lok vikunnar

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mynd/vilhelm
Veðurstofan gerir áfram ráð fyrir vonskuveðri í lok vikunnar. Nokkrar breytingar hafa orðið á fyrri spám og vindstrengurinn hefur færst nokkuð vestar.

Enn er spáin að breytast og er gert ráð fyrir að lægðin sem gengur yfir dýpki mjög hratt. Nokkur óvissa er um í hvaða landshluta veðrið verður verst, en gera má ráð fyrir slæmu veðri víða á landinu. Einnig má búast við ísingu þegar kólnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Deildin hefur síðustu daga verið í sambandi við lögreglustjóra, almannavarnanefndir, sveitarstjóra, bændur, og ferðaþjónustuaðila og fleiri og hvatt þá til að fylgjast með veðurspám, og upplýsa þá sem eru á ferð um veðurútlit og grípa til aðgerða ef með þarf með öryggi almennings að leiðarljósi.

Þá fundaði almannavarnadeildin með fulltrúum Slysavarnafélagsins Landsbjörgu og Safe Travel í dag, en björgunarsveitarmenn á vegum hálendisvaktarinnar hafa farið um svæðið norðan Vatnajökuls og mið- hálendið og upplýst hjólreiðamenn, göngumenn, ökumenn og aðra sem þar eru á ferð. Upplýsingamiðstöðvar ferðaþjónustunnar, gististaðir, skálaverðir og landverðir hafa einnig  fengið tilkynningar um það veður, sem er í aðsigi. Svæðisstjórnir björgunarsveita hafa einnig allar verið upplýstar.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist áfram með framvindunni í samvinnu við Veðurstofuna og miðlar upplýsingum á vef Almannavarna og á Facebook-síðu deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×