Innlent

Flugvallarmálið: „Slepjuleg slagorð og ósvífin tilfinningarök“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Auglýsingaherferð samtakanna Hjartað í Vatnsmýrinni
Auglýsingaherferð samtakanna Hjartað í Vatnsmýrinni samsett mynd
„Það er búið að gera hjartveika akureyska stelpu að „poster-girl“ fyrir því að ef flugvöllurinn fer muni börn deyja. Þetta er ósvífið og ósmekklegt. Þetta er lágkúra í sinni tærustu mynd.“

Svona hefjast bakþankar Halldórs Halldórssonar, sem er betur þekktur undir nafninu Dóri DNA, sem birtust í Fréttablaðinu og hér á Vísi í dag.

Samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni standa fyrir undirskriftarsöfnun á lending.is þar sem skorað er á stjórnvöld að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni. Samtökin standa einnig fyrir auglýsingaherferð þessa dagana þar sem einstaklingar segja reynslusögu sína undir yfirskriftinni „Ég á líf, þökk sé Reykjavíkurflugvelli.“ Hver frásögn endar á að viðkomandi segist vera á lífi vegna nálægðar flugvallarins við Landspítala.

Friðrik Pálsson og Halldór Halldórsson.Samsett mynd
Halldór gagnrýnir harðlega þessi skilaboð. „Þetta eru ósvífin frekjurök, taktlaus áróður. Það er hægt að snúa allri umræðu upp í umræðu um líf og dauða ef maður leyfir svona afleiðurökum og móðursýki að flæða,“ skrifar Halldór og endar greinina á að biðja fólk um að láta ekki „slepjuleg slagorð og ósvífin tilfinningarök ráða för.“



Friðrik Pálsson, formaður samtakanna, segir þessa grein dæma sig sjálfa. „Það að höfundur greinarinnar noti orðið „poster-girl“ finnst mér langt fyrir neðan virðingu hans, að tala svona um stúlkuna sem segir sögu sína. Ég hvet fólk til að lesa greinina. Það mun fjölga stuðningsmönnum okkar og þeim sem skrifa undir söfnunina.“



Friðrik segir baráttuna ekki snúast eingöngu um líf og dauða og tilfinningasemi. „Ég hvet fólk til að skoða heimasíðu samtakanna, þar tíundum við öll þau rök sem við teljum fyrir því að flugvöllurinn eigi að vera í Vatnsmýrinni. Aðstaða sjúkraflugsins er einn af þeim þáttum og mjög mikilvægur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×