Innlent

Flugvöllurinn: Meirihluti undirskrifta kemur frá íbúum höfuðborgarsvæðisins

Hrund Þórsdóttir skrifar
Nær 60 þúsund hafa skrifað undir stuðningsyfirlýsingu um að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, en undirskriftasöfnun fór af stað á lending.is fyrir tæpum tveimur vikum. Söfnunin fór mjög bratt af stað og þótt hún eigi að standa yfir til 20. september, þegar frestur rennur út til að gera athugasemdir við aðalskipulagstillögu Reykjavíkurborgar, er söfnunin þegar orðin sú fjölmennasta frá upphafi. Rúmlega 56 þúsund gildar undirskriftir söfnuðust gegn Icesave samningnum á sínum tíma.

Skipting undirskrifta eftir landsvæðum gæti komið einhverjum á óvart, því meirihluti þeirra kemur frá íbúum höfuðborgarsvæðisins, eða 54%. 46% undirskrifta koma því frá landsbyggðinni. Um 32.400 íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa því skrifað undir og 27.600 landsmenn sem búa utan þess.

 Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, hafði þetta að segja um söfnunina á mánudaginn. „Það sem er náttúrulega mjög sérstakt við þessar undirskriftir er að við vitum ekki hvert er hlutfall íbúa Reykjavíkur í þeim. Ég hef náttúrulega tekið við fjölda undirskriftalista, en ég veit ekki hver afstaða mín gagnvart undirskriftum íbúa utan Reykjavíkur er, ég bara hef aldrei staðið frammi fyrir því.“

 Nú liggur ljóst fyrir að meirihluti undirskrifta kemur frá íbúum höfuðborgarsvæðisins og það verður fróðlegt að sjá hvort söfnunin hefur áhrif á stefnumótun varðandi framtíð flugvallarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×