Lífið

Ódýrasta gamanþáttaröð Íslandssögunnar

Einn vinsælasti grínisti landsins undanfarin ár verður í aðalhlutverki á í kvöld í gamanþættinum Bara grín á Stöð 2. Um er að ræða Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktan sem Steinda Jr.

Í þessum sprenghlægilegu og skemmtilegu þáttum rifjar Björn Bragi Arnarsson upp brot úr bestu gamanþáttum Stöðvar 2 með myndbrotum og viðtölum.

Fyrsti þáttur Steinda Jr. var sýndur vorið 2010 og sló strax í gegn. Sjálfur segir hann að vinsældir þáttanna hafi komið þeim á óvart.

"Við vissum í raun ekkert hvernig þessum þáttum yrði tekið. Vinsældir þeirra komu okkur því þægilega á óvart. Í þáttunum vorum við að búa til grín sem Íslendingar höfðu ekki áður séð í innlendum grínþáttum." Eftir velgengni fyrstu seríunnar voru tvær aðrar búnar til og sýndar á Stöð 2 árin 2011 og 2012.

Hann segir að gaman hafi verið að rifja upp þessa tíma með Birni, sérstaklega frá fyrstu seríunni. "Það sem stendur upp úr varðandi fyrstu seríuna er hversu rosalega ódýr hún var í framleiðslu. Ég get fullyrt að aldrei áður hefur verið framleidd jafn ódýr grínþáttaröð á Íslandi. Hún var líka mjög hrá og við nýttum skemmtilegar og óvenjulegar aðferðir svo þetta gengi allt upp hjá okkur."

Að eigin sögn er hann mikill aðdáandi eldri íslenskra grínþátta og hefur horft á þá flesta. "Ég er algjört nörd þegar kemur að íslenskum grínþáttum, sérstaklega eldri þáttum eins og Radíus, Limbó, Örninn er sestur og Fastir liðir eins og venjulega. Þeir þættir sem höfðu þó mest áhrif á mig voru Tvíhöfði og Fóstbræður. Það var alltaf gaman að mæta í skólann daginn eftir Fóstbræður og ræða þáttinn við vinina, enda stúderuðum við þessa þætti mjög mikið."

Bara grín verður sýndur á Stöð 2, í kvöld klukkan 20.15.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.