Innlent

Tannlæknakostnaður: "Það munar hundrað þúsund krónum"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ólöf Birna Kristínardóttir fór með tveggja og hálfs árs dóttur sína, Kristínu Helgu, til tannlæknis þar sem gera þurfti við tvær skemmdir. Einnig stóð til að skorufylla hjá henni og með svæfingu áttu herlegheitin að kosta rúmar hundraðogfimmtíu þúsund krónur. Það fannst Ólöfu dýrt svo hún leitaði álits hjá öðrum tannlækni. „Upphaflega hefði þetta getað verið dýrast 155 þúsund og af því hefði Tryggingastofnun greitt um 45 þúsund svo okkar hlutur hefði verið 110 þúsund. Svo fór þetta niður í 30 þúsund og okkar hlutur í 10 þúsund, þannig að það munar hundrað þúsund krónum,“ segir Ólöf.

Það borgaði sig því svo sannarlega að gera samanburð en Ólöf segir það ekki hafa gengið þrautalaust fyrir sig. Fyrst ræddi hún við einn tannlækni sem taldi ekki þörf á eins miklum aðgerðum og sá fyrsti og var því mun ódýrari. „Ég hringdi líka á nokkra staði til að fá samanburðarverð en gat ekki fengið þau nema mæta í skoðun með hana og það er ansi dýrt að þurfa alltaf að borga skoðunargjaldið,“ segir Ólöf.

Hjá fyrsta tannlækninum greiddi Ólöf 15 þúsund krónur í skoðunargjald svo hefði hún farið til nokkurra hefði heildarupphæðin, aðeins fyrir skoðun, getað hlaupið á tugum þúsunda. Hún segir mun á verði milli tannlækna ótrúlega mikinn og að sérstaklega sé gagnrýni vert að þeir gefi ekki upp verð símleiðis sé óskað eftir því. „Mér finnst að maður eigi bara að geta borið þetta saman sjálfur heima, það eiga ekkert allir hundraðogfimmtíuþúsund krónur til að fara með barnið til tannlæknis,“ segir hún.

Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, sagði í samtali við fréttastofu í dag að tannlæknum væri uppálagt að hafa verðskrár á sýnilegum stað á biðstofum sínum en að þeim væri ekki gert að gefa upp upplýsingar um verð í gegnum síma. Slíkt gæti verið óábyrgt þar sem ekki væri hægt að meta þörf sjúklinga fyrir þjónustu án þess að hitta þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×