Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Þór - Fylkir 2-2 | Sigurganga Fylkis stöðvuð

Ólafur Haukur Tómasson á Þórsvelli skrifar
Þór og Fylkir skildu jöfn 2-2 norðan heiða í 16. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik.

Fylkir hafði verið á mikilli siglingu og unnið síðustu fjóra leiki sína áður en þeir mættu til Akureyrar þar sem Þór batt enda á sigurgöngu þeirra.

Leikurinn byrjaði af miklum og komust heimamenn í Þór yfir á 16. mínútu þegar Chuckwudi Chijindu fylgdi eftir sláarskoti Jóhanns Þórhallssonar og kom boltanum í netið.

Fylkir var ekki lengi að svara fyrir sig og á 18. mínútu slapp Viðar Örn Kjartansson inn fyrir vörn Þórs eftir flotta sendingu frá Tómasi Þorsteinssyni og lagði boltann framhjá Joshua Wicks í marki Þórs.

Aðeins tveimur mínútum síðar var spiluðu Fylkismenn sig inn í teig Þórs þar sem Ármann Pétur Ævarsson felldi Tómas Þorsteinsson og var vítaspyrna dæmd sem Finnur Ólafsson skoraði úr. Gestirnir þá komnir í 2-1.

Mikil barátta var í liðunum og spöruðu menn ekkert tæklingarnar í fyrri hálfleik og var Guy Roger heppinn að fá ekki sitt annað gula spjald þegar hann tæklaði Jónas Sigurbergsson, leikmann Þórs, fremur harkalega.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks jafnaði Mark Tubæk með skoti af löngu færi sem söng í netinu en spurning er hvort Bjarni Þórður Halldórsson, markvörður Fylkis, hefði ekki átt að gera betur. Staðan var því 2-2 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var ekki eins góður og sá fyrri en Fylkismenn áttu tvö ágæt færi. Í fyrra skiptið varði Wicks vel frá Viðari Erni sem var kominn í ákjósanlega stöðu og Árni Freyr Guðnason var óheppinn að ná ekki að reka stóru tánna í fyrirgjöf og stýra boltanum yfir línuna. Mark Tubæk átti svo flotta rispu þar sem hann fór illa með varnarmenn Fylkis og vildi fá vítaspyrnu er hann féll inn í teig eftir það.

Meira gerðist ekki í leiknum og leikurinn endaði með sanngjörnu jafntefli. Fylkir hefur 17 stig í 8. sæti deildarinnar en Þór hefur 15 stig í 9. sætinu.

Ásmundur Arnarsson: Gat farið á hvorn veginn sem var
Mynd/Daníel
„Ég held að hvorugt liðið sé sátt við jafntefli en það er kannski sanngjarnt eins og það spilaðist. Ég vissi alltaf að þetta yrði erfiður leikur og Þórsarar myndu mæta grimmir til leiks sem þeir gerðu, stóðu í okkur allan tímann og létu okkur hafa fyrir þessu. Heilt yfir þá held ég að við verðum að vera sáttir við þetta því bæði liðin vildu vinna þetta," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis eftir leikinn.

Fylkir lenti undir í leiknum en náði að jafna og komast yfir mjög fljótt. Ásmundi fannst liðið byrja illa en vinna sig vel inn í leikinn: „Við byrjuðum leikinn illa. Við vorum værukærir og byrjuðum illa en sem betur fer náðum við að vinna okkur úr því. Það er ekki alltaf sem það tekst en það tókst í dag og við mættum enn grimmari í seinni hálfleikinn og lágum þokkalega á þeim en þeir sóttu á okkur á móti og þetta gat farið hvorn meginn sem var."

Mótið byrjaði ekki vel hjá Fylki og var útlitið ekki gott á tímabili en mikill viðsnúningur hefur verið á liðinu undanfarið. Hvað var til þess að gengið snérist við? „Við gerðum ýmsa hluti, það voru hrókeringar og það komu ferskir menn inn og um leið og fyrsti sigurinn datt þá fengu menn trúnna. Það var ekki eins og við vorum að tapa stórt framan af sumri og vorum oft nálægt þessu, því bara spurning hvenær við næðum þessu," sagði Ásmundur.

Fylkir hefur ekki enn unnið leik sem Ásgeir Börkur Ásgeirsson spilar ekki í sumar, er hann það mikilvægur fyrir þá að þeir geti ekki unnið án hans?

„Í síðasta leik þá byrjaði hann þó hann hafi farið útaf eftir tíu mínútur og þá náðum við samt að klára hann þó hann hafi ekki verið inn á þá. Það er kannski „trick-ið" á meðan hann er meiddur að láta hann byrja inn á og taka hann svo útaf."

Ásgeir fór meiddur út af í síðasta leik, er langt í hann?

„Nei, nei. Það er ekki langt í hann," bætti Ásmundur við.

Páll Viðar Gíslason: Baksýnisspegillinn heldur manni gangandi
Eftir leikinn í dag hefur Þór aðeins náð í fimm stig á heimavelli í sumar, fannst Páli Viðari úrslitin sanngjörn?

„Nei. Auðvitað vil ég þrjú stig á heimavelli og við höfum ekki verið að sigra marga leiki hérna heima. Við skorum tvö mörk en fáum tvö mörk á okkur svo auðvitað er ég hundfúll en ég held að þetta séu ekki ósanngjörn úrslit," sagði Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs eftir leikinn.

Í enn eitt skiptið í vetur fær Þór á sig nokkur mörk á stuttu millibili og var hann ekki par sáttur með varnarleik sinna manna í fyrri hálfleik:

„Varnarlínan okkar leit ekki vel út í fyrri hálfleik en hún stórbatnaði í seinni hálfleik. Við vorum samt að gefa færi á okkur og kannski ekki að skapa okkur nóg hinu meginn þó pressan frá okkur hafi verið fín. 2-2 úrslit eru held ég ásættanleg niðurstaða eftir á en auðvitað vildum við vinna þennan leik."

Jónas Björgvin Sigurbergsson byrjaði sinn fyrsta leik í Pepsi deildinni og átti góðan leik á miðjunni hjá Þór. Gæti hann hugsanlega byrjað aftur í næsta leik liðsins? „Já, eins og allir hinir nítján leikmennirnir. Ég treysti öllum mínum mönnum til að byrja leiki og það verður bara að skoða það eftir æfingavikuna hverjir munu spila," sagði Páll Viðar.

Þór er að dragast aftur í fallpakkann sem þeir virtust vera að fjarlægast snemma á mótinu og margir mikilvægir leikir framundan, er Páll Viðar bjartsýnn á framhaldið?

„Ég er alltaf að reyna að vera bjartsýnn fyrir alla leiki en það er alltaf baksýnisspegillinn sem er að halda manni gangandi og margt sem þarf að laga hjá okkur. Við erum alltaf að berjast við það sama, eins og ég hef sagt frá upphafi, að það er að ná jafnvægi í sóknar- og varnarleiknum liðsins og ekki að þetta sé bara annað hvort eða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×