Lífið

Ólafur Darri með flest áheit: „Ég er fullur þakklætis“

Haraldur Guðmundsson skrifar
Ólafur Darri ætlar að hlaupa til styrktar vinkonu sinni Sunnu Valdísi.
Ólafur Darri ætlar að hlaupa til styrktar vinkonu sinni Sunnu Valdísi.
Ólafur Darri Ólafsson leikari hefur nú safnað flestum áheitum í áheitasöfnun Hlaupastyrks sem haldin er í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Ólafur hefur þegar þetta er skrifað safnað 815.757 krónum sem renna til AHC-samtakanna á Íslandi.

Ólafur ætlar að hlaupa tíu kílómetra til styrktar Sunnu Valdísi Sigurðardóttur sem er eini AHC-sjúklingurinn sem greindur hefur verið á Íslandi.

„Mér finnst þetta yndislegt og ég er fullur þakklætis. Það er ótrúlega gaman að sjá að ég er farinn að nálgast markmiðið um að ná að safna einni milljón króna. Hins vegar skiptir ekki öllu að vera í fyrsta sæti enda er hægt að styrkja mörg góð málefni. Ég sé bara eftir því að hafa ekki haft markmiðið hærra,“ sagði Ólafur og hló þegar blaðamaður Vísis sló á þráðinn til hans nú seinnipartinn.

Eins og kom fram hér á Vísi fyrr í dag þá neitaði Ólafur Darri að taka við gjöfum í fertugsafmælisveislu sinni um helgina en bað afmælisgesti þess í stað að heita á sig. Að auki var greiðsluposi í veislunni þar sem gestir gátu styrkt AHC samtökin beint. „Þar söfnuðust um 70.000 krónur til viðbótar og ég veit einnig að einhverjir lögðu inn á reikning samtakanna,“ sagði Ólafur.

„Nú eru enn fimm dagar til stefnu og ég vona að það gangi sem allra best hjá öllum sem eru að safna áheitum og ég hvet fólk sem er aflögufært eindregið til að fara inn á www.hlaupastyrkur.is og styrkja góð málefni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.