Fótbolti

Segir vörslur Guðbjargar eiga heima á DVD-disk

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðbjörg í leiknum umtalaða gegn Þýskalandi.
Guðbjörg í leiknum umtalaða gegn Þýskalandi. Nordicphotos/Getty
Evrópumóti kvennalandsliða í knattspyrnu lauk með sigri Þjóðverja á Norðmönnum á sunnudag. Á heimasíðu Knattspyrnusambands Evrópu gera blaðamenn upp mótið.

Nokkrir blaðamenn eru beðnir um að nefna þau augnablik sem þeir teldu hafa staðið upp úr í Svíþjóð. Átta blaðamenn nefna sitt uppáhaldsaugnablik og nefna tveir þeirra Ísland til sögunnar.

„Ísland vildi umfram allt bæta árangur sinn frá því fyrir fjórum árum þegar allir leikirnir töpuðust," skrifar blaðmaðurinn Trevor Haylett og rifjar upp jöfnunarmark Íslands gegn Noregi.

„Þremur mínútum fyrir leikslok var brotið á hinni sívinnandi Söru Björk Gunnarsdóttur innan teigs og vítaspyrna dæmd. Landsliðsþjálfarinn Siggi Eyjólfsson var taugaóstyrkur þegar markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir setti boltann á punktinn áður en hún kláraði dæmið af sannfæringu. Um yndislegt augnablik fyrir Ísland var að ræða. Fyrsta stig A-landsliðs á stórmóti."

Guðbjörg stóð í ströngu gegn Þjóðverjum.Nordicphotos/Getty
Ian Holyman fer fögrum orðum um frammistöðu Guðbjargar Gunnarsdóttur gegn áttföldum Evrópumeisturum Þýskalands. Hann segir réttilega að Guðbjörg hafi fengið tækifærið vegna meiðsla Þóru Bjargar Helgadóttur. Í Þýskalandsleiknum hafi hún varið skalla Lenu Lotzen með miklum tilþrifum sem og skot Céliu Okoyino da Mbabi af stuttu færi.

„Vörslurnar tvær voru aðeins hluti af þeim sem ættu heima á DVD-disk og gera tilkall til bestu vörslu keppninnar," ritar Holyman og bætir við:

„Hefði ekki verið fyrir stórkostlegar vörslur Guðbjrgar hefðu lokatölurnar verið í anda þeirra sem sjást í rúbbý en ekki fótbolta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×