Innlent

Tólf ára íslensk brúður

Hrund Þórsdóttir skrifar
Brúðurin mætti á staðinn í skreyttum bíl eins og venjan er, en brúðkaupsgestum brá í brún þegar í ljós kom að um kornunga stúlku var að ræða. Brúðguminn var líka töluvert eldri en hún, eða 47 ára.

Brúðkaupið var þó stöðvað í tæka tíð, enda í raun gjörningur á vegum Ungmennaráðs UN Women og sviðslistahóps frá Hinu húsinu. Tilgangurinn var að vekja athygli á barnabrúðkaupum sem tíðkast víða um heim og eru að sögn forsvarsmanna gjörningsins eitt stærsta ofbeldisvandamálið gegn stúlkum í heiminum.

„Okkur fannst sniðugt að prófa að setja þetta í íslenskan raunveruleika af því að fyrir okkur er þetta svo fáránlegt að svona ung stelpa væri að giftast einhverjum gömlum karli. Við vildum fá fólk til að hugsa um þetta, því þetta þykir eðlilegt svo víða. 14 milljónir stúlkna undir 18 ára aldri eru giftar, í þvinguðum hjónaböndum. Það eru 39 þúsund stúlkur á dag, 27 á hverri mínútu, sem eru giftar, þvingaðar í hjónaband,“ segir Snæfríður Ólafsdóttir, stjórnarkona í Ungmennaráði UN Women.

Markmiðið var sérstaklega að ná til ungs fólks. „Þetta eru jafnaldrar okkar og ég til dæmis hugsa til þess að fyrir átta árum var jafnaldra mín gift. Hún er búin að vera gift í átta ár á meðan ég er búin að fara í framhaldsskóla, háskóla, og klára grunnskóla, á meðan hennar líf stoppar,“ segir Salka Margrét Sigurðardóttir, formaður Ungmennaráðs UN Women. „Allir eiga að láta sig þetta málefni varða og saman skulum við uppræta ofbeldi gegn stúlkum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×