Innlent

"Þetta var eins og sprenging“

Boði Logason skrifar
Þetta var eins og sprenging, segir starfsmaður í Melabúðinni eftir að jeppa var ekið inn í hlið verslunarinnar síðdegis í dag. Lán í óláni að enginn slasaðist, segir eigandinn.

Hér er hægt að sjá ótrúlegt myndband úr öryggismyndavél sem eigandi Melabúðarinnar setti á Facebook í dag.

Það var um klukkan fimm í dag sem jeppa var ekið inn í Melabúðina. Bílstjórinn ætlaði að leggja bílnum fyrir utan verslunina en svo virðist sem hann hafi fyrir slysni stigið á bensíngjöfina í staðinn fyrir bremsuna.

„Ég stóð við kjötborðið og við heyrðum mikinn mikinn skell, þetta var meira eins og sprenging en eitthvað annað. Við sáum bara hvernig hillan kom á móti okkur, þetta var það mikið högg. Það fyrsta sem við gerðum öll var að hlaupa til og athuga hvað gerðist og hvort einhver hefði slasast. Við vorum öll í sjokki en maður reyndi nú bara að bregðast hratt og rétt við," segir Anna Þóra Alfreðsdóttir, starfsmaður í versluninni.

Talsvert eignatjón varð við höggið en engin alvarleg slys urðu á fólki. Kona sem var með sofandi barn sitt í barnavagni sagði í samtali við fréttastofu stuttu eftir atvikið að hún hafi ætlað að leggja vagninn frá sér á sama stað og jeppinn kom inn í vegginn. Það varð henni hinsvegar til happs að annar viðskiptavinur benti henni á að setja vagninn nær hurðinni á meðan hún færi inn að versla. Nokkrum sekúndum síðar var jeppanum ekið á vegginn.

„Það er algjört lán í óláni að enginn slasaðist. Tjónið skiptir okkur engu máli og það verður bætt, en bara gott að allir komumst heilir frá þessu," segir Pétur Alan Guðmundsson, eigandi Melabúðarinnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×