Innlent

Auglýsing vekur sterk viðbrögð

Boði Logason skrifar
Arnar Helgi segir að auglýsingin hafi fengið sterk viðbrögð síðustu klukkutíma.
Arnar Helgi segir að auglýsingin hafi fengið sterk viðbrögð síðustu klukkutíma.

„Við erum ótrúlega sáttir með viðtökurnar, síðast þegar ég athugaði þá voru 18 þúsund manns búnir að horfa á auglýsinga frá því í morgun,“ segir Arnar Helgi Hlynsson, einn af eigendum Tjarnargötunnar sem gerði auglýsingu í samstarfi við Samgöngustofu og Símann.

Auglýsingin hefur vakið sterk viðbrögð, þá ekki síst á samskiptasíðunni Facebook. Markmið hennar er að vekja athygli á því að tala í síma undir stýri, sem og að senda SMS eða vafra á heimasíðum.

Það er óhætt að segja að auglýsingin sé mjög óhefðbundin. Áður en horft er á hana þarf áhorfandinn að setja inn símanúmerið sitt og tengja sig í gegnum Facebook. Og þá byrjar ballið. Áhorfandinn er allt í einu orðinn þátttakandi í miðjum bíltúr með ímyndaðri persónu sem heitir Áróra Guðmundsdóttir. Áhorfandinn fær SMS frá henni, símtal og myndir af sér á símanum hennar.

Arnar Helgi segir að hugmyndin að auglýsingunni hafi komið fyrir einu og hálfu ári. „Það var svo í lok síðasta árs sem við fórum af stað með þetta. Þetta hefur ekki verið gert áður í sömu auglýsingu, það er að segja tengingin við Facebook, SMS og símtal,“ segir hann.

Síðustu mánuði hafa Tjarnargatan, Síminn og Samgöngustofa unnið að baki brotnu við að hanna auglýsinguna. „Það var svolítil vinna að fá þetta allt til að virka, það voru mörg forrit notuð. Við ákváðum strax að hafa þetta sem raunverulegast, og að persónugera auglýsinguna - okkur fannst það mjög mikilvægt,“ segir hann.

„Þetta er líka mjög gott málefni og ég held að fólk átti sig ekki almennilega á því þegar það skoðar símann sinn undir stýri. Maður þekkir það sjálfur,“ segir hann.

Auglýsinguna má prófa, eða taka þátt í, á síðunni Höldumfókus.is

Og hér horfa má á Stefán Eiríksson, lögreglustjóra, Einar Magnús Magnússon, kynningarstjóra Samgöngustofu, og Gunnhildi Örnu, upplýsingafulltrúa Símans, ræða um átakið Höldum Fókus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×