Fótbolti

Segir ásakanirnar tómt kjaftæði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kólumbíumaðurinn Radamel Falcao segir tóma vitleysu að hann hafi logið til um aldur sinn líkt og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum í Kólumbíu.

Falcao, sem gekk til liðs við Monaco fyrir um 60 milljónir evra í sumar, er sakaður um að hafa falsað fæðingardag sinn. Hann sé í raun tveimur árum eldri en talið hefur verið til þessa, 29 ára en ekki 27 ára.

Falcao vísaði ásökununum á bug á Twitter-aðgangi sínum í kvöld.

„Fréttaumfjöllun um aldur minn undanfarið hafa komið mér á óvart og ásakanirnar eru tómt kjaftæði," skrifaði Falcao.

„Ég ætla að svara þessum ásökunum skipulega og ljúka málinu fyrir fullt og allt."

Svo mörg voru orð Kólumbíumannsins en fróðlegt verður að fylgjast með gangi mála í stóra aldursmálinu. Fjölmargir knattspyrnumenn hafa í gegnum tíðina verið sakaðir um að ljúga til um aldur sinn. Má nefna Nígeríumennina Taribo West og Kanu sem dæmi en ekkert hefur verið sannað í þeim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×