Á Facebook-síðu ungmennasamtakanna var mynd af Erlu á hlýrabol í sumarhitanum. Það fór fyrir brjóstið á Slobodanka Miladinovic, varaborgarstjóra Krusevac.
„Hún er í flokki sem er mjög á móti Evrópusambandinu og fannst hún sjá þarna leik á borði og setti inn afar illkvittna athugasemd,“ segir Erla.
Sagði Slobodanka að íslenska fegurðardísin væri aldeilis til marks um allt hið fagra sem kemur úr Evrópusambandinu eða hitt þó heldur. Reyndar væri hún eins og paprikutínslukona úr nágrenni borgarinnar. Ungmennasamtökin sem Erla Durr vinnur fyrir í Belgrad, sem og nær öll serbneska þjóðin, brugðust harkalega við.
„Þetta var tekið fyrir í einu af stærstu dagblöðum landsins og svo í ríkissjónvarpinu og allir fordæmdu þetta,“ rifjar Erla upp.

Má segja að framferði Erlu sé nú orðið að skólabókadæmi um heppnaða baráttu fyrir bættu samfélagi. Málið fór svo hátt að borgarstjórinn í Krusevac, Bratislav Bata Gasic, sá sig nauðbeygðan til að ganga fram fyrir skjöldu og biðjast afsökunar.
Erla segir að varaborgarstjórinn hafi hins vegar komið sér hjá því en hann lét nægja að lýsa yfir vonbrigðum með að málið hafi orðið svo fyrirferðamikið og afvegaleitt. Síðasta mánudag var henni ekki stætt lengur í embætti svo hún sagði af sér.
„Ég var mjög ánægð,“ segir Erla. „Þarna var reitt hátt til höggs. Ég er sjálfboðaliði svo það er ekki eins og ég eigi að vera í kjól og hvítu. Hún er hins vegar opinber persóna sem ætti að taka sér alla þá landa sína til fyrirmyndar sem ofbauð framkoma hennar. Eins hefði hún mátt vita að Ísland er ekki í Evrópusambandinu eins og hún sagði í athugasemdinni.