Fótbolti

Ferill Magath mögulega á enda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Þýski knattspyrnustjórinn Felix Magath hefur mögulega stýrt sínu síðasta liði á ferlinum en hann hefur gert Bayern München og Wolfsburg að þýskum meisturum.

Magath er 59 ára gamall og starfaði síðast hjá Wolfsburg. Hann hefur þó verið án félags síðan hann hætti þar í lok síðasta tímabils. Hann hefur starfað í Þýskalandi allan sinn feril en hann lék lengst af með Hamburg og spilaði 43 leiki með landsliði Vestur-Þýskalands.

Þjálfaraferillinn hófst svo árið 1995 er hann tók við Hamburg en síðan þá hefur hann stýrt nokkrum liðum með góðum árangri.

„Ég sé ekki fyrir mér að ég muni starfa sem þjálfari aftur,“ sagði Magath í samtali við þýska dagblaðið Die Welt í dag. „Ég á bara erfitt að ímynda mér það starf sem myndi freista mín það mikið að ég myndi fara frá fjölskyldu minni. Það starf er að minnsta kosti ekki að finna í Þýskalandi.“

„Fjölskyldan mín býr í München og þar ganga yngstu börnin mín þrjú í skóla. Þeirra vinir eru hér. Vil ég virkilega flytja í burtu og missa af því að taka þátt í uppeldi þeirra? Ég sé eftir því að hafa misst af svo miklu í uppeldi þriggja barna minna úr fyrri hjónabandi mínu. Þá var ég atvinnumaður hjá Hamburg og hafði sjaldan tíma fyrir þau,“ sagði Magath.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×