Innlent

„Enginn býður upp á að láta nauðga sér“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Frá Druslugöngunni í fyrra.
Frá Druslugöngunni í fyrra. MYND/365
Druslugangan verður haldin í þriðja sinn á morgun. Tilgangur göngunnar er að færa  ábyrgð kynferðisglæpa frá fórnarlömbum og yfir á gerendur.

Gengið verður frá Hallgrímskirkju, niður Skólavörðustíg og Bankastræti. Gangan endar svo á Austurvelli þar sem við taka fundarhöld og tónleikar.

Yfirlýst markmið göngunnar er að uppræta þá fordóma sem endurspeglast í áherslu á klæðaburð og ástand brotaþola í umræðu um kynferðisofbeldi. Þannig vilja skipuleggjendur göngunnar vekja athygli á því að það eru gerendur sem bera ábyrgð á kynferðisofbeldi, en ekki þolendur.

María Rut Kristinsdóttir er talsmaður göngunnar. „Megintilgangur göngunnar er að það skiptir aldrei neinu máli hvernig einstaklingur er klæddur, hvernig hans fas er, hvort  hann sé fullur eða hvað sem er. Nauðgun er aldrei réttlætanleg og með göngunni viljum við reyna að fá samfélagið til að átta sig á því að það er aldrei þolandanum að kenna ef hann er misnotaður,“ segir María.

Fyrirmynd Druslugöngunnar er hin svonefnda Slut walk sem fyrst var farin í Toronto í Kanada árið 2011 eftir að lögreglustjóri í borginni hafði látið þau umdæmdu ummæli falla að konur þyrftu að passa að klæða sig ekki druslulega til að verða ekki að fórnarlömbum.

„Við viljum vekja athygli á því að það skiptir ekki máli hverju maður er klæddur, enginn býður upp á að láta nauðga sér,“ segir María.

Á morgun verður Druslugangan einnig haldin í þriðja sinn á Akureyri í og í annað sinn í Vestmannaeyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×