Íslenski boltinn

Óvissa með David James

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
David James í marki ÍBV gegn FH fyrr í sumar.
David James í marki ÍBV gegn FH fyrr í sumar. Mynd/Daníel
Svo gæti farið að David James, markvörður ÍBV, missi af viðureign ÍBV og FH í Pepsi-deild karla laugardaginn 3. ágúst. Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, staðfesti þetta í samtali við Vísi í dag.

Leikurinn átti upphaflega að fara fram miðvikudaginn 7. ágúst en honum þarf að flýta vegna þátttöku FH-inga í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Vefmiðillinn 433.is greindi frá því í dag að James væri búinn að skuldbinda sig í verkefni hjá BT-sport sjónvarpsstöðinni þessa helgi.

Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, segir í samtali við Vísi að James fljúgi utan fimmtudaginn 1. ágúst. Ekki liggur þó ljóst fyrir hvort hann verði kominn til landsins í tæka tíð fyrir leikinn gegn FH.

Hermann Hreiðarsson, þjálfari Eyjamanna, segir sína menn rétt að átta sig á breyttum leiktíma. Því sé ekki enn víst hvort James verði í markinu eða ekki.

Eyjamenn hafa þó engar áhyggjur af stöðu markvarðar í leiknum. Guðjón Orri Sigurjónsson hafi staðið vaktina í Ólafsvík fyrr í sumar og hélt hreinu.

„Það væri ekki ónýtt ef hann héldi hreinu á móti Íslandsmeisturunum líka," segir Óskar Örn sem hefur tröllatrú á Guðjóni Orra. Ungir leikmenn verði að fá sitt tækifæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×