Íslenski boltinn

Magnús: Höfum samþykkt tilboð í Rúnar

Mynd / Stefán
„Það koma oft villtir fyrri hálfleikar og svo detta leikirnir niður en mér fannst þessi ekki detta niður. Það var fullt af færum í seinni hálfleik og þrjú mörk í viðbót. Þetta var kannski eins og fólkið vill hafa þetta en ekki þjálfararnir," sagði Magnús Gylfason, þjálfari Vals, eftir sigurinn á ÍA, 6-4 í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Það losnaði einhver stífla, það var langt síðan við höfðum skorað. Þessi leikur var mjög opinn og við fengum nokkur færi í viðbót við mörkin.

„Það var sálfræðilega gríðarlega sterkt að komast yfir fyrir leikhlé. Við vorum ekki að spila illa og fengum þessi mörk á okkur úr föstum leikatriðum. Það hefði verið freistandi ef við værum undir í hálfleik að breyta en mér fannst við ekki spila illa í fyrri hálfleik þrátt fyrir að fá á okkur þrjú mörk. Við löguðum ákveðna hluti og menn brugðust vel við og kláruðu leikinn á fullu,“ sagði Magnús sem staðfesti að Valur sé búið að taka erlendu tilboði í Rúnar Má Sigurjónsson.

Samkvæmt heimildum 433.is hefur Valur samþykkt tilboð frá sænska félaginu Sundsvall í Rúnar.

„Það er búið að samþykkja tilboð sem kom erlendis frá. Það á eftir að fara fram læknisskoðun og hann á eftir að semja sjálfur. Það er mikill missir að missa hann. Hann er meiddur og er búinn að vera meiddur,“ sagði Magnús.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×