Innlent

Grunaður um að hafa stolið mótorhjóli og þjóðbúningi

Valur Grettisson skrifar
Lögreglan að störfum. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Lögreglan að störfum. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Hæstiréttur Íslands staðfesti í gær vikulangt gæsluvarðhald yfir karlmanni vegna gruns um stórfelldan þjófnað.

Maðurinn á meðal annars að hafa brotist inn í íbúðarhús þar sem hann stal myndavél og linsu. Í sama innbroti á maðurinn að hafa stolið mótorhjólafatnaði, mótorhjóli ásamt lyklum, íslenskum þjóðbúning og hnífum en verðmæti þýfisins eru 1,3 milljónir króna.

Lögreglan stöðvaði bifreið mannsins um helgina. Kom þá í ljós að hann var með rafstuðbyssu í farþegasætinu og loftskammbyssu í aftursætinu. Í bifreiðinni fundust einnig munir sem tengjast innbrotinu, meðal annars bíllyklar og greiðslukort.

Þá fann lögreglan jafnframt peningamaskínu úr hraðbanka, auk íþróttatösku með kúbeini og slaghamri. Maðurinn neitar sök en hefur gefið misvísandi skýringar á vörslu þessara muna sem fundust í bifreiðinni.

Gæsluvarðhaldið rennur út 12 júlí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×