Fótbolti

Bara draumur fyrir okkur ef hin liðin vanmeta okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára á æfingu með íslenska liðinu ytra.
Margrét Lára á æfingu með íslenska liðinu ytra. Mynd/ÓskarÓ
Margrét Lára Viðarsdóttir og félagar hennar í íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta stefna á sigur og þrjú stig í fyrsta leiknum á móti Noregi sem fram fer í Kalmar í kvöld.

„Ég er búin að segja það lengi að það skiptir öllu máli að byrja vel á mótinu. Með því að fá þrjú stig í fyrsta leik þá finnum við það að við erum með í þessu móti og eigum möguleika á því að komast upp úr riðlinum. Það er ótrúlega mikilvægt en líka það að fá sjálfstraust í liðið. Þó að stemmningin sé góð þá erum við fótboltalið og erum hér til að ná árangri. Þegar árangur næst kemur ennþá betri stemmning í hópinn," segir Margrét Lára.

Íslenska liðið er ekki hátt skrifað í samanburði við Þýskaland, Noreg og Holland sem eru öll lið sem knattspyrnuspekingar telja líkleg til afreka á mótinu.

„Það sjá öll liðin kannski möguleika á því að fá þrjú stig á móti okkur. Það er ekkert óeðlilegt í ljósi úrslitanna í leikjum okkar á árinu. Við vonumst til að það vinni bara með okkur og það væri bara draumur fyrir okkur ef liðin vanmeta okkur. Það aldrei ákjósanlegt þegar lið fara að vanmeta einhvern og við þekkjum það best sjálfar. Það er ákveðinn möguleiki fyrir okkur að vera litla liðið í riðlinum. Það væri skemmtilegt að geta komið svolítið á óvart," segir Margrét Lára.

„Ef maður hugsar draumafótboltaleikinn þá er það að skora á fyrstu fimm til tíu mínútum. Það er mikilvægt að byrja vel og ná inn marki því þá getur maður svolítið farið að verja sitt eigið mark. Fyrst og fremst fyrir okkur er að spila góða vörn og halda markinu okkar hreinu. Við erum síðan með skeinuhætt lið fram á við. Við getum alltaf skorað mörk og höfum sýnt það því það eru fáir leikir þar sem við höfum ekki skorað mark."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×