Innlent

Uppbygging vegna olíuleitar gæti hafist fljótlega

Karen Kjartansdóttir skrifar
Olíumálaráðherra Noregs fundaði í fyrradag með forsætisráðherra Íslands um uppbyggingu  olíuiðnaðar hér á landi. Þetta er í annað sinn á árinu sem hann kemur til Íslands til að ræða olíumál og segir forsætisráðherra ekki spurningu hvort heldur hvenær olía finnist.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega fjallað um olíu og gas í íslenskri lögsögu. Þar er meðal annars kveðið á um að stofna eigi sérstakt ríkisolíufélag, undirbúningur þess hófst í tíð fyrri ríkisstjórnar og hefur núverandi ríkisstjórn haldið þeirri vinnu stíft áfram.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra segir Norðmenn mjög áhugasama um málið. Hann fundaði með Ola Borten Moe, olíumálaráðherra Noregs, í fyrradag og ræddi áframhaldandi samstarf á þessu sviði. Þegar hafa þjóðrinar gert með sér formlegt samkomulag um olíuleit á Drekasvæðinu og íslenska hluta Jan Mayen svæðisins.

„Það sýnir að þeir hafa trú á að þeir telja að þarna sé að finna gas og olíu í vinnanlegu magni. Þeir hafa reyndar gert mat á því hversu líklegt það er og það leiddi í ljós að á því eru verulegar líkur," segir Sigmundur Davíð.

Sigmundur fundaði einnig með Kaj Leo Johannesen, lögmanni Færeyja, fyrir skömmu og fræddist um þá uppbyggingu sem þar hefur verið ráðist í vegna möguleikans á því að finna olíu.

„Það er áhugavert að bera þetta saman við Færeyjar, þeir hafa borað átta stórar tilraunaholur, ekki enn fundið góða lind en leitin og umsvifin í kringum borunina hafa haft veruleg áhrif á efnahagslíf Færeyja og eiga stóran þátt í þeim hagvexti sem þar hefur náðst að undanförnu. Það sama ætti að eiga við um Ísland. Þegar þessi vinna fer af stað fyrir alvöru og þjónustan í tengslum við hana frá Íslandi bæði á Norður- og Austurlandi," segir Sigmundur Davíð.

Gert er ráð fyrir að stofna ríkisolífélaga áður en langt um líður, sú vinna sé langt á veg komin. Uppbygging á austurlandi sé því fyrirsjáanleg. Hann vilji helst ekki tala um hvort olía finnist heldur hvernær.

„Það er mikilvægt að hafa í hug að jafnvel þótt allt færi á versta veg og við fyndum ekki olíu eða gas þá er hægt að þjónusta slíka starfsemi við Grænland eða Færeyjar, jafnvel í norskri landhelgi frá Íslandi. Þannig það ríður á að nota tækifærið núna til að byggja upp þekkinguna og getuna hér innanlands."
Fleiri fréttir

Sjá meira


×