Innlent

Laust járnstykki olli slysinu

Ingveldur Geirsdóttir skrifar
Sex létust í slysinu og hátt í þrjátíu manns eru alvarlega slasaðir.
Sex létust í slysinu og hátt í þrjátíu manns eru alvarlega slasaðir.
Laust járnstykki í lestarteinunum olli lestarslysinu í París í gær að sögn sérfræðinga á vegum Frönsku ríkisjárnbrautanna. Sex létust í slysinu og hátt í þrjátíu manns eru alvarlega slasaðir.

Hátt í fjögurhundruð farþegar voru í lestinni sem var á ferðinni á annatíma  en Bastilludagurinn, þjóðhátíðardagur Frakka, er á morgun. Lestin fór út af sporinu við brautarpall skammt utan við París með þeim afleiðingum að fjórir af sjö vögnum hennar losnuðu frá og ultu.

Franski samgönguráðherrann sagði mannleg mistök ekki hafa valdið slysinu og lofaði lestarstjórann fyrir að hafa brugðist hárrétt við og komið í veg fyrir frekara manntjón.

Forseti Frakklands kom á slysstaðinn í gærkvöldi, hann sagði að stöðin yrði lokuð í þrjá daga á meðan rannsókn á slysinu stendur yfir. Björgunarstarfsmenn leituðu fram á morgun að fólki á slysstað en að minnsta kosti sex hafa fundist látnir, tuttugu og tveir alvarlega slasaðir og hátt í hundrað með minni háttar áverka.

Nú þykir ljóst að það sem olli slysinu hafi verið járnstykki sem tengir saman lestarteinana  um 200 metra frá brautarpallinum, frá þessu segir á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×