Innlent

Mikilvægt að óvissa um ESB viðræður dragist ekki á langinn

Heimir Már Pétursson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Herman van Rompuy forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Herman van Rompuy forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins mynd/esb
Herman van Rompuy forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins sagði eftir fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra í Brussel í morgun að Evrópusambandið væri reiðubúið til að ljúka aðildarviðræðum Íslands að sambandinu.

Evrópusambandið virti hins vegar vilja íslensku þjóðarinnar og þá nálgun nýrrar ríkisstjórnar að vilja skoða stöðu viðræðnanna og þróun innan Evrópusambandsins undanfarin misseri, áður en ákvörðun verði tekið um framhald viðræðna. En forsætisráðherra gerði van Rompuy grein fyrir þvi að skýrsla um þessi mál yrði lögð fyrir Alþingi á haustþingi.

van Rompuy ítrekaði hins vegar að það væri mikilvægt fyrir báða aðila að óvissa um framhald aðildarviðræðnanna drægist ekki á langinn. Hann sagði það sýna mikilvægi samskipta Íslands og Evrópusambandsins að Sigmundur Davíð skyldi heimsækja Evrópusambandið í fyrstu heimsókn sinni til útlanda frá því hann tók við embætti.

Að loknum fundinum með van Rompuy átti Sigmundur Davíð fund með Maríu Damanaki sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, en hún hefur boðað refsiaðgerðir gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makrílveiða þjóðanna fyrir næstu mánaðamót.

Þessa stundina situr forsætisráðherra fund í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×