Innlent

Veðurfræðingur stakk upp á mannfórnum

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Sólarsinnarnir höfðu fengið sig fullsadda af rigningarsudda.
Sólarsinnarnir höfðu fengið sig fullsadda af rigningarsudda. mynd/Loftur Ásgeirsson
„Sú krafa skal undanbragðalaust sett hér fram að sólin fari tafarlaust að skína á allt landið og miðin.“

Svo mælti Agnar Guðnason, þáverandi blaðafulltrúi bændasamtakanna, á fjölmennum mótmælafundi við Veðurstofuna þann 22. júlí 1983.

„Jafnframt er sú krafa gerð að Veðurstofan verði seld suður til Sahara því að þar má að skaðlausu rigna í nokkra mánuði samfellt,“ bætti Agnar við, en tilefni mótmælanna var mikil vætutíð í júní og júlí sem svokölluð Samtök sólarsinna höfðu fengið nóg af.

„Það stytti ekki upp í heilan mánuð,“ segir Agnar í samtali við Vísi, sem ætlar þó ekki að standa fyrir mótmælum þetta sumarið þrátt fyrir mikið votviðri. „Nei það voru aðrir sem stóðu fyrir mótmælunum og fengu mig til að mæta og segja nokkur orð sem starfsmaður bændasamtakanna.“

Agnar segist ekki hafa trúað mikið á mótmælin, enda hafi þau aðallega verið til gamans gerð. „Það hélt líka áfram að rigna, þó aðeins hafi dregið úr.“

„Þetta var skipulagt af blaðamönnum á DV sem bjuggu til mótmælaspjöldin,“ segir Sigurður G. Valgeirsson sem var umsjónarmaður helgarblaðsins á þeim tíma. „Ég hafði - eins og ég man þetta - frumkvæði að þessu og fékk náttúrlega þessa fínu grein í helgarblaðið um málið. Við fórum svo einhver af blaðinu og ég var búinn að semja við bæjarvinnunna um að fá "mótmælendur" þaðan."

Agnar Guðnason hélt ræðu og afhenti svo Flosa Sigurðssyni veðurfræðingi sólríkt veðurkort fyrir hönd sólarsinnanna.
Mannfórnir næsta skref

Slagorð á borð við „Ætlar Veðurstofan að láta snjóa í ágúst?“, „Vísitölubindum sólarstundirnar,“ og „Hvar eru gömlu loforðin, Trausti?“ mátti lesa á mótmælaskiltum sólarsinnanna.

Var þar vísað til veðurfræðingsins Trausta Jónssonar sem sagði í samtali við Tímann í ágúst sama ár að ekki væri annað sjáanlegt í veðurspánni en rigningarsuddi og leiðindaveður sunnanlands.

„Ef til vill verður næsta skrefið það að setja á svið fórnarathöfn hér við Veðurstofuna til að þóknast veðurguðunum,“ sagði Trausti og fullyrti hann að ekki dygði minna en að veðurfræðingarnir köstuðu sér fram af húsinu til að milda guðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×