Innlent

Forsætisráðherra mælir með alþjóðlegri björgunarmiðstöð á Íslandi

Heimir Már Pétursson skrifar
Sigmundur og Anders funduðu í höfuðstöðvum NATO í gær.
Sigmundur og Anders funduðu í höfuðstöðvum NATO í gær. Mynd/Nato
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins í gær að Ísland vildi taka þátt í þróun bandalagsins varðandi netöryggismál. Þá segir forsætisráðherra að Ísland henti vel fyrir alþjóðlega björgunarmiðstöð á Norðurslóðum.

Sigmundur Davíð fundaði með Anders Fogh Rasmussen framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, NATO, í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel í gær, í sinni fyrstu heimsókn til útlanda frá því hann tók við embætti. Forsætisráðherra segist hafa átt góðan fund með Rasmussen og ítrekað að Ísland vildi vinna áfram með NATO að þeim verkefnum sem Ísland hefði komið að innan bandalagsins hingað til.

"En jafnframt vildum við taka þátt í þróun NATO sem er auðvitað að taka að sér ný hlutverk í breyttum heimi. Þar er töluverð vinna í gangi varðandi tækni og netöryggismál, allt sem varðar samskiptatæknina og upplýsingar og mikilvægt fyrir Ísland að taka þátt í þeirri vinnu og njóta góðs af þeim vörnum sem NATO byggir upp á því sviði," segir Sigmundur Davíð.

Forsætisráðherra segist auk þess hafa rætt málefni norðurslóða við framkvæmdastjóra NATO og mikilvægi þess að byggja upp innviði á Norðurslóðum, ekki hvað síst á sviði leitar og björgunar.

"Þar sem ég ítrekaði það sem Íslendingar hafa bent á áður að hjá okkur væri til staðar mikil þekking á þessu sviði og Ísland gæti jafnvel verið hentugur staður fyrir alþjóðlega björgunarmiðstöð," segir forsætisráðherra. Og þá ekki endilega eingöngu í samstarfi við NATO ríki heldur lönd á norðurslóðum almennt.

"En það er allt eins líklegt að NATO hefði aðkomu að slíkri starfsemi, með t.d. starfsfólki og tækjabúnaði. En það er auðvitað allt í vinnslu. Aðkoma okkar hins vegar yrði á okkar eigin forsendum en í samstarfi við önnur lönd," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×