Innlent

Björk söng fyrir Trayvon Martin í Toronto

Heimir Már Pétursson skrifar
Björk bætist nú í ört vaxandi hóp tónlistarfólks sem hefur mótmælt niðurstöðu dómstólsins í Flórída sem sýknaði Zimmerman fyrir að hafa myrt Martin.
Björk bætist nú í ört vaxandi hóp tónlistarfólks sem hefur mótmælt niðurstöðu dómstólsins í Flórída sem sýknaði Zimmerman fyrir að hafa myrt Martin.
Björk hefur bæst í hóp tónlistarmanna sem mótmæla niðurstöðu dómstóls í Flórída sem sýknaði nágrannagæslumann af ákæru um að hafa myrt Trayvon Martin í fyrra. Í lok tónleika í Toronto í Kanada á þriðjudag tileinkaði Björk Martin lagið sitt Declare Independence.

Björk hefur áður tileinkað lagið Declare Independence ýmsum málstað en frægt var þegar hún var á tónleikaferðalagi í Kína og tileinkaði lagið frelsisbaráttu Tíbeta. Eins tileinkaði hún lagið Pussy Riots þegar hún var á tónleikum í Rússlandi.

Undanfarnar vikur hefur Björk verið á tónleikaferðlagi í Kanada þar sem henni hefur víðast hvar verið vel tekið. Á þriðjudag kom hún fram í Toronto og endaði tónleikana á Declare Independence og bætti í textann orðunum "réttlæti" og "reisið flagg ykkar" og tileinkaði hinum 17 ára blökkumanni Trayvon Martin lagið, sem nágrannavörslumaðurinn George Zimmermann skaut til bana í Flórida í fyrra. Zimmerman taldi Martin ógnandi fyrir það eitt að vera í hettupeysu og af amerísk-afrískum uppruna.

Málið hefur valdið gífurlegri ólgu í Flórída og mótmæli brutust út þegar Zimmermann var bæði sýknaður af ákæru um morð og manndráp á laugardag. Fleiri tónlistarmenn hafa tileinkað Martin lög sín, þeirra á meðal Bruce Springsteen, Beyonce og eiginmaður hennar Jay-Z og Stevie Wonder hefur heitið því að koma ekki fram á tónleikum í Florída fyrr en lögum þar hefur verið breytt. Samkvæmt lögum ríkisins getur verið réttlætanlegt að skjóta mann ef maður telur að sér stafi ógn af honum og eru þau lög vægast sagt umdeild..




Fleiri fréttir

Sjá meira


×