Innlent

Ný bráðageðdeild opnar í ágúst

Hrund Þórsdóttir skrifar
Iðnaðarmenn vinna nú baki brotnu að breytingum á deild 32c á Landspítalanum, en þar er stefnt að því að opna bráðageðdeild um miðjan ágústmánuð. Gamla deildin var barn síns tíma og þeirri nýju er ætlað að leysa vandamál sem hefur verið aðkallandi lengi.

Hingað til hafa verið bráðagangar inni á öðrum geðdeildum með tilheyrandi vandamálum og segir Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, að öllu hafi ægt saman. „Í einu herbergi var kannski einstaklingur í sturlunarástandi og í næsta herbergi kona með lítið barn sem var þunglynd eða aldraður einstaklingur,“ segir Páll.

Á deildinni verða tíu einstaklingsherbergi auk tveggja öryggisherbergja þar sem fólk kemur inn og er metið. Páll segir nýju deildina hafa sérstöðu að tvennu leyti. Annars vegar er starfsfólk þjálfað upp í að takast á við sturlunarástand og ofbeldi með öflugum en nærgætnum hætti og hins vegar er umhverfinu breytt og öryggi aukið. „Þar er gengið þannig frá öllu að fólk geti illa skaðað sig. Húsgögn eru þung, það eru ekki staðir þar sem þú getur auðveldlega skaðað þig á húsmunum og öðru slíku og jafnframt eru svefngangar aðskildir, konur á öðrum ganginum og karlmenn á hinum. Það eru þrjár setustofur og miklu meira rými fyrir fólk til að jafna sig,“ segir Páll.

Páll segir að í raun sé ekki til fjármagn til verksins. Velferðarráðuneytið hafi styrkt það en framtakið hefði verið ómögulegt án aðkomu átaksins Á allra vörum, sem hefur stutt deildina og stendur fyrir söfnunarátaki í haust.

Nýja deildin er í gömlu húsnæði og engir nýir starfsmenn verða ráðnir inn, en Páll þvertekur þó fyrir að skera þurfi niður aðra þjónustu vegna þessa. Nú verði ekki lengur bráðagangar á öðrum deildum og þannig skapist aukið rými þar og rúmin verði jafnmörg eftir sem áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×